Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:25:05 (5186)

2002-02-26 19:25:05# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:25]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Enn bæta þingmenn Sjálfstfl. í og ekki er nú dregið af í gagnrýninni á þessa till. til þál. frá hæstv. iðnrh. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir m.a. að gera verði gagngerar breytingar á tillögunni til þess að hún njóti stuðnings hans. Það væri fróðlegt að fá einhver dæmi til viðbótar við það sem hv. þm. hefur nefnt um það hvað gæti orðið t.d. úrslitaatriðið í því hvort hann mundi styðja tillöguna eður ei.

En það var fleira, herra forseti, og ég vona að mér fyrirgefist það að líta á ræðuhöld hv. þm. sem eina ræðu þó að nokkurt hlé hafi verið á henni, en hv. þm. hefur m.a. nefnt það að stjórnsýslan sé á móti því að flytja opinber störf og verkefni til landsbyggðarinnar en ríkisstjórnin vilji það, þar sé viljinn alveg kristaltær.

En maður hlýtur að spyrja, herra forseti, hver er það sem ræður, hver er það sem stjórnar? Hefur hv. þm. ekki meiri trú á ríkisstjórninni eða völdum hennar en að ríkisstjórnin ráði ekki við stjórnsýsluna? Er þá ekki komið að því að það væri þá m.a. sett inn í byggðaáætlunina hvernig mætti ná tökum á ríkisstjórninni?