Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:27:26 (5188)

2002-02-26 19:27:26# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:27]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. að mjög mikilvægt er að útþensla ríkisins verði um allt land en ekki bundin hér við þetta svæði og það er lykilatriði. Það er alveg ljóst að hv. þm. hefur mikinn stuðning þingmanna stjórnarandstöðunnar til að kveðið verði miklum mun skýrar að orði í þessari till. til þál. þannig að ljóst sé að við gerð t.d. næstu fjárlaga og jafnvel við afgreiðslu fjáraukalaga í haust sé hægt að taka á ákveðnum þáttum á skýran hátt.

En, herra forseti, það hefur gerst ítrekað að þingmenn Sjálfstfl. hafa komið hér upp og rætt um Byggðastofnun eins og þar séu gífurleg vandræði. Það sé ekki vansalaust, eins og mig minnir að hv. þm. hafi nefnt það, hvernig ástandið hafi verið þar að undanförnu, þ.e. í Byggðastofnun. Þetta er a.m.k. annar ef ekki þriðji þingmaður Sjálfstfl. sem kemur upp og talar á svipuðum nótum. Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að spyrja hv. þm.: Hvað er það nákvæmlega sem hv. þm. á við?