Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:32:07 (5192)

2002-02-26 19:32:07# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á að í sjálfu sér er ekki verið að breyta um fiskveiðistefnu eða fiskveiðistjórnarstefnu. Það er í rauninni verið að framlengja óbreytt kerfi sem hefur í megindráttum verið við lýði a.m.k. síðan 1990 þegar framsal á fiskveiðiheimildum var gefið frjálst.

Það sem hv. þm. er að gagnrýna hér hefur hann umborið sl. tíu ár og þó að nú sé verið að tala um veiðileyfagjald, eins konar auðlindagjald, sem ég er andvígur er ekki verið að leggja til neina meginbreytingu. Megináherslan er að óbreyttu kerfi skuli viðhaldið sem mun áfram verða dýrkeypt byggðunum vítt og breitt um landið, einmitt strandbyggðunum sem við tölum um að þurfi að verja og gefa forgangsrétt á þeim náttúruauðlindum sem eru við bæjardyrnar hjá þeim og er alveg sjálfsagður frumburðarréttur.

Það er þarna sem við þurfum að taka á. Sú áætlun um byggðamál sem við erum að fjalla um og hv. þingmönnum Sjálfstfl. hefur fundist lítið til um ásamt mér er því lítils virði ef ekki er tekið á öðrum málum.