Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:38:06 (5197)

2002-02-26 19:38:06# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:38]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Arður af atvinnurekstri í markaðssamfélagi dreifist. Um það bera best vitni kjör manna í Ameríku og í allri Vestur-Evrópu, og þróun þeirra mála síðustu 200 árin. Þó að einstaka gamlir kommúnistar trúi ekki að svo sé er vitnisburðurinn sem stendur þar eftir kjör manna í Vestur-Evrópu, í Vesturheimi. Þau standa bara eftir.

Hins vegar á umræðan um sjávarútvegsmálin að fara fram á fimmtudaginn kemur. Það er ekki vani að menn geri grein fyrir atkvæði sínu fyrr en að þeirri umræðu kemur. En ég get svo sem alveg tekið forskot á sæluna, herra forseti, ef það getur róað kæra vini. Menn geta alveg treyst því og ég get sagt frá því hér tveim dögum áður að ég mun örugglega og trúfastlega greiða atkvæði gegn auðlindaskatti á sjávarútveginn á fimmtudaginn og alla þá daga þegar ég á að standa frammi fyrir því.