Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:45:32 (5198)

2002-02-26 19:45:32# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég var nú niðri í matsal að horfa á næstæðsta mann landsins, hæstv. forsrh., segja okkur hvaða stefnu hann og ríkisstjórnin hefðu í ýmsum málum. En það verður ekki við það unað að hlýða á þau orð og best að snúa sér að umræðunni um byggðamál.

Það vill svo til að byggðamálin voru lengi undir valdsviði hæstv. forsrh. Ég vék að því í fyrri ræðu minni í dag að fyrir tíu árum, árið 1991, hefði verið gefin út sérstök skýrsla og tillögur í byggðamálum. Þegar maður lítur á þær tillögur sem birtust í febrúar árið 1991 þá er ótrúlega margt líkt með þeim og því sem birtist í þessu plaggi nú og í raun og veru má segja að þau atriði sem birtast í núverandi þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005, sem talin eru upp í fimm liðum frá a til e, að nánast öll þau orð sem þar standa í þessum fimm liðum má finna í skjali frá 1991 þar sem voru tillögur um fyrstu aðgerðir í byggðamálum, að vísu taldar upp í tíu liðum þá. Meðal annars var þar sagt að meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu yrði til á landsbyggðinni.

Þar var stefnumótun um áætlanagerð, að virk þátttaka heimamanna yrði tekin upp á sviði byggðamála, komið yrði á fót héraðsmiðstöðvum og talið upp hvar þær ættu að vera staðsettar, m.a. á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og nokkrum fleiri stöðum á landinu, þannig að sú umræða sem er hér í dag um að efla ákveðin svæði og ákveðna staði á landinu er mjög gömul, hún er meira en tíu ára gömul.

Þar sagði líka í 5. lið þeirra tillagna frá 1991 að sveitarfélög yrðu sameinuð og stækkuð og efld verulega, að atvinnuþróunarfélög yrðu efld og atvinnuþróunarsjóðir styrktir í kjördæmum landsbyggðarinnar, jöfnun raforkuverðs o.s.frv. Megnið af þeim orðum sem standa í þeirri byggðaáætlun sem við erum nú að ræða hafa því verið okkur kunn a.m.k. í tíu ár. Hins vegar hefur skort eftirfylgni, eftirfylgni um þá framkvæmd að viðhalda byggð í landinu og að framkvæmdin snúist ekki öll að því að þegar til verða ný störf í opinberri þjónustu þá verði þau öll á höfuðborgarsvæðinu eins og verið hefur á undanförnum árum og áratugum.

Því miður er það svo, eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, varðandi eflingu ríkisstarfa úti á landi, flutning stofnana út á land eða starfa út á land á vegum hins opinbera, að þar er ekki um mikinn árangur að ræða. Þó ber ekki að lasta það fáa sem tekist hefur.

Það eru auðvitað nokkur atriði sem ég vildi ræða í þessari áætlun en á átta mínútum gefst ekki langur tími til þess að fara yfir stefnu og horfur í byggðamálum. Ég hef margoft sagt að mín skoðun sé sú að fyrir hinar dreifðu og veikari byggðir, og þá er ég að tala um sjávarútvegs- og landbúnaðarbyggðir landsins á Norðvesturlandi, Vestfjörðum, við Breiðafjörð, á Norðausturlandi og víðar reyndar, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni í dag, þá skiptir atvinnulífið mestu máli. Það var segin saga að þegar uppsveifla var í atvinnulífinu almennt á landsbyggðinni, á árunum milli 1970 og 1980, þá fjölgaði á landsbyggðinni. Síðan hefur fólki á landsbyggðinni fækkað jafnt og stöðugt þó að örlítið hafi dregið úr því á síðasta ári.

Það er auðvitað svo að fólk vill vera nokkuð tryggt um atvinnu sína og að það hafi nokkuð góðar tekjur á landsbyggðinni, einkum þar sem það er almennt dýrara að búa á þar. Búsetukostnaður hefur lengstum verið meiri þar en á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að segjast eins og er að stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum hefur ekki verið til þess að laga þennan búsetukostnað eða jafna hann nema að sáralitlu leyti. Lengi vel borgaði landsbyggðarfólk jafnhá fasteignagjöld af eignum sínum þó að eignirnar væru að raunvirði lægri en í Reykjavík og var þá miðað við fasteignamat á Reykjavíkursvæðinu.

Nú hefur þetta verið fært til betri vegar og er nú miðað við raunverð fasteigna á viðkomandi stöðum. Það er hins vegar svo að vegna þróunar í atvinnumálum hefur fasteignaverð hrunið víða á þessum stöðum þannig að fólk, þótt það vildi færa sig á milli svæða, á ekki létt með það þar sem verð fyrir fasteignir þeirra er miklu lægra en á þeim svæðum sem það kannski teldi sig geta flutt á vegna atvinnu- og byggðaþróunar, t.d. á suðvesturhornið eða á Akureyrarsvæðið.

Menntun á landsbyggðinni hefur batnað að mínu viti og samgöngur hafa batnað, samt ekki nóg. Vil ég sérstaklega í því sambandi vekja athygli á því að samgöngur innan Vestfjarða milli norður- og suðursvæðis eru aðeins hluta úr ári. Það er algjörlega óviðunandi ástand að búa við og ef á að vera hægt að efla byggð og styrkja samvinnu Vestfirðinga varðandi þjónustu og annað, þá þarf að tengja þau svæði saman með heilsársvegasamgöngum. Að vísu er komið inn í jarðagangaáætlun að gera skuli göng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð og er það vel, en því máli þarf virkilega að hraða. Einnig þarf að hraða því að suðurhluti Vestfjarða búi við eðlilegt vegakerfi allan ársins hring og sé ekki eins og eyland þó að það sé fast við landið eins og Vestfjarðakjálkinn að öðru leyti, vegna þess að samgöngurnar eru eingöngu sumarsamgöngur. Þessu þarf að breyta sem allra fyrst.

Fjöldamargt er hægt að gera til að styrkja atvinnu á landsbyggðinni og búsetu þar. Það má jafna námslánakostnað og jöfnun kostnaðar vegna náms. Það má gera betur í því að jafna húshitunarkostnað. Þungaskatturinn hefur oft verið til umræðu, hann hækkar vöruverð á landsbyggðinni, hann hækkar kostnað fyrirtækja á landsbyggðinni og virðisaukaskatturinn vegur að sumu leyti eins varðandi flutningskostnaðinn.

Hins vegar er alveg bráðnauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að í dreifðum byggðum landsins, einkum þeim sem ég hef gert hér að umræðuefni, er sjávarútvegurinn að stórum hluta undirstaðan og landbúnaðurinn er bakland sem þarf að vera til staðar fyrir þær byggðir ef þær eiga að halda velli. Það sem þarf að gera er að tryggja að ekki verði frekari samdráttur í sjávarútvegi og tryggja þarf til framtíðar vissu fólksins á þessum svæðum fyrir því að geta lifað af landsins gæðum til sjós og lands.