Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:02:01 (5200)

2002-02-26 20:02:01# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni um þessa till. til þál. um stefnu í byggðamálum fjallaði ég aðallega um skólamál og menntamál. Þar kom ég einmitt inn á að í tillögunni eru góð fyrirheit og góð orð sett á blað um að hverju bæri að vinna. (GAK: Þau voru það líka 1991.) Þau voru það líka 1991, segir hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Já, þau voru það nefnilega líka 1991.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstfl. og a.m.k. á köflum stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar, sagði að ekki væri nokkur naglfesta í þessari till. til þál. um byggðamál, að þetta væri bara fallegt snakk. Eitthvað í þá veruna orðaði hv. þm. það.

Sú er einmitt staðan í menntamálunum. Þar er langt milli orða og athafna og við upplifðum það við gerð fjárlaga fyrir þetta ár að framlög til menntamála, til skólamála voru skorin niður og þegar verið var að samþykkja frv. um sérstaka tekjuöflun fyrir ríkissjóð var einmitt fundin sú leið að skattleggja nemendur, hækka skólagjöld og skattleggja nemendur og sérstaklega hækka skólagjöld á nemendum í verk- og starfsnámi. Það sýnir huginn varðandi menntun.

Lítum á fleiri mál. Hér hefur verið rætt að það þurfi að styrkja stöðu sveitarfélaganna. Það er alveg hárrétt. Það þarf að efla hlutverk þeirra og gefa þeim möguleika, kost og svigrúm til þess að axla aukna ábyrgð svo þau geti veitt íbúum sínum sterkari og betri þjónustu. Þetta er líka mjög fallegt og göfugt markmið. En hver er staðan?

Staðan er sú að skuldir sveitarfélaganna vaxa og vaxa. Færð eru til þeirra aukin verkefni frá ríkisvaldinu en tekjustofnar fylgja ekki með og vandi þeirra eykst. Til hvers er þá gripið? Jú, það er boðist til þess að kaupa af þeim eignirnar. Ríkissjóður, meiri hlutinn hér, býðst til þess að kaupa af þeim eignir til þess að létta á bráðaskuldavandanum. Hvað var gert fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum sem höfðu mátt búa við það að m.a. fiskveiðistjórnarkerfið hafði rúið þau, íbúana þar, rétti sínum og möguleikum og forgangi að fiskimiðunum meðfram ströndum Vestfjarða? Fiskveiðiheimildir voru fluttar í aðra landshluta og fyrirtæki þeirra höfðu þar ekki lengur lífsgrundvöll og tekjur sveitarfélaganna höfðu líka hrunið.

Hvað er gert? Jú, ríkisvaldið er reiðubúið að hjálpa þeim. ,,Við skulum kaupa af ykkur eignir. Hvernig er með orkubúið ykkar? Við höfum trú á því að orkubúskapur sé búskapur framtíðarinnar. Við höfum trú á því. Þess vegna skulum við kaupa af ykkur orkubúið til þess að létta á skuldum ykkar.``

Hér á suðvesturhorninu eru Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja að styrkja sig og efla. Það er ekki verið að tala um að selja þær eða láta ríkið hafa þær. Nei, það er verið að styrkja þær og efla til átaks í atvinnumálunum fyrir viðkomandi byggðarlög. En úti á landi þar skal bara kaupa þetta upp í skuldir sveitarfélaganna.

Hvað er gert við Sauðárkrók, Skagafjörð? Sveitarfélagið Skagafjörður á í fjárhagsvandræðum m.a. vegna álaga sem til eru komnar vegna stjórnvaldsaðgerða. Jú, það er sjálfsagt að bjóðast til þess að kaupa af þeim rafveituna, létta af þeim skuldunum í bili, rafveituna sem var afskrifað fyrirtæki og skilaði íbúunum bæði öruggri þjónustu og margháttuðum beinum og óbeinum arði. Nei, það er sjálfsagt að taka þetta af þeim upp í skuldir. Núna stendur sveitarfélagið kannski frammi fyrir því að þurfa að senda steinullarverksmiðjuna sína sömu leið til þess að létta af sér skuldum.

Svo sjáum við hér í till. til þál. að það þurfi að efla sveitarfélögin til að geta tekið að sér aukin verkefni. Fyrir nokkru síðan var hér lagt fram lagafrv. um að heimilt væri að hlutafélagavæða vatnsveiturnar, gera sveitarfélögunumn kleift að hlutafélagavæða vatnsveiturnar, einkavæða þær og síðan mögulega að selja vatnsveiturnar. Kannski fáum við að upplifa það næsta vetur að ríkið bjóðist til að kaupa vatnsveiturnar af sveitarfélögunum á Vestfjörðum eða á Norðurlandi eða annars staðar sem sveitarfélög eiga í vandræðum.

Þessi einkavæðingarleið er sú leið sem ríkisstjórnin býður. Svo er sagt fagurlega: ,,Við stefnum að því að efla sveitarfélögin.`` Já, það er stefnt að því með því að rýja þau eignum sínum, möguleikunum til atvinnulífs og nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Þessari stefnu erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði á móti. Við erum á móti þessari tegund af byggðastefnu sem ríkisstjórnin iðkar.

Lítið hefur farið fyrir landbúnaðarmálunum í þessari till. til þál. Það er rétt svona skautað yfir þau. Þó er nefnt í aðgerðaáætluninni, sem er svo sem gott, að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hafi verið stofnaður 1999. Það stendur hér einhvers staðar í aðgerðaáætluninni. Það er gott og blessað. En þar hefur starfað landbúnaðarháskóli síðan 1947 og útskrifað landbúnaðarkandídata, háskólamenntað fólk í landbúnaði. Það varð bara tæknileg breyting 1999. En þetta er tíundað þarna og það er gott. Að öðru leyti eru menn fátalaðir um aðgerðir í landbúnaðarmálum.

Það er von að heilu landshlutarnir telji sig verða út undan og telji að málefnum þeirra sé lítill gaumur gefinn. Hvammstangi hefur verið nefndur. Einmitt núna í fréttum var tilkynnt að þar væri verið að loka mjólkurbúinu með sjö fasta starfsmenn plús aðra starfsemi sem því tengist. Já, en samt er ekki minnst á þetta í byggðaáætluninni. Á Hvammstanga er líka verið að tala um að loka pósthúsinu. Þar eru a.m.k. tvö ef ekki fleiri heil störf. Ekki er minnst á þessa almannaþjónustu í byggðaáætluninni. Nei, þar er forðast að nefna neitt sem er naglfast, neitt sem í rauninni kemur byggðunum til góða við að styrkja grunnþjónustuna sem þar er með því að vera með þá lagaumgjörð að sveitarfélögin geti (Forseti hringir.) sjálf stýrt sér og verið fjárhagslega sjálfstæð en þurfi ekki að láta hirða eignir sínar upp í skuldir eins og ríkisvaldið iðkar gagnvart þeim.