Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:10:24 (5201)

2002-02-26 20:10:24# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að nota seinni ræðu mína til þess að ljúka því máli sem ég hóf hér við fyrri ræðuna, þ.e. að leggja áherslu á stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég ítreka það sem ég sagði áður að sitthvað í tillöguflutningi ríkisstjórnarinnar rímar ágætlega við þær áherslur sem við höfum haft uppi. Þar vegur að sjálfsögðu þyngst þar sem talað er um fjölbreytni í atvinnulífi, að það eigi að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og einnig er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Þetta er mjög í þeim anda sem við höfum talað hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og gott væri ef saman færu orð og efndir, orð og athafnir. Nægir þar að minna á þau áform sem eru stærst hjá ríkisstjórninni nú um stundir, þ.e. að virkja við Kárahnjúka og reisa þar stærstu orkustöð í landinu og sjá risavaxinni álbræðslu fyrir orku. Það á hvorki að gera á sjálfbæran hátt né mun það stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi nema síður sé.

Það sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum talað fyrir til að tryggja fjölbreytni í atvinnulífi er í rauninni þrennt. Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á að styrkja velferðarþjónustu og stoðþjónustu í landinu. Með velferðarþjónustu vísum við til skóla, við vísum til heilbrigðisstofnana og annarrar ámóta þjónustu. En með stoðkerfinu vísum við til samgangna, fjarskipta og annars af því tagi. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni hefur þessi stoðþjónusta verið að veikjast eða öllu heldur hefur hún verið veikt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Ég vitnaði þar í tölur varðandi póstþjónustuna. Menn hóta reyndar í greinargerð með þessari þáltill. að halda áfram á sömu braut því vísað er sérstaklega í áform um að færa verkefni frá opinberum aðilum til fyrirtækja, með öðrum orðum að halda áfram að einkavæða.

Taka má fjölmörg dæmi um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og kerfisbreytingar á liðnum árum sem hafa komið mjög illa við landsbyggðina. Ég nefni þar t.d. einkavæðingu rafmagnseftirlits í landinu. Rafmagnseftirliti var áður sinnt af starfsmönnum í raforkugeiranum víðs vegar um landið. Síðan var farið yfir í nýtt kerfi. Löggildingarstofu var fengið það verkefni að hanna almennar reglur sem áttu að gilda um þennan geira. Síðan var komið á fót svokölluðum skoðunarstofum sem áttu að fylgjast með því með úrtaki að farið væri að settum reglum.

Og hvað gerist? Skoðunarstofurnar, sem eru nú ekki ýkja margar reyndar, eru allar á höfuðborgarsvæðinu og senda síðan fulltrúa sína út á landsbyggðina með miklum tilkostnaði til þess að ráðast í þessar úrtaksskoðanir sem reyndar eru af svo skornum skammti að menn kvarta um það víðs vegar um landið að rafmagnseftirliti sé mjög áfátt. Ég nefni þetta sem dæmi um kerfisbreytingar sem hafa komið í bakið á landsbyggðinni og eru byggðafjandsamlegar í þeim skilningi.

[20:15]

Annað atriði sem við leggjum áherslu á er að auka aðgengi að ódýru fjármagni eða fjármagni á hagstæðum kjörum og fjármagni til nýsköpunar og uppbyggingar í atvinnulífi. Hér fyrr á tíð höfðu ýmsir sjóðir þessu hlutverki að gegna og ég nefndi nokkra hér áðan, Fiskveiðasjóð, Iðnþróunarsjóð og fleiri sem voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem var einkavæddur. Þegar sá banki hafði lokið sínu verki á vegum ríkisstjórnarinnar höfðu aðgerðir hans leitt til meiri samþjöppunar í vörudreifingu en dæmi voru um áður.

Nú er talað um að Byggðastofnun fái það verkefni að hafa forustu á þessu sviði. Það á að gera Byggðastofnun að eins konar fjárfestingarbanka. Ekki ætla ég að leggjast gegn því nema síður væri. En þetta sýnir okkur bara að þörfin er þarna fyrir hendi, ekki síst þegar búið er að einkavæða ríkisbankana og þeir eru farnir að starfa í þeim anda að þeir eigi fyrst og aðeins að hugsa um arðsemi af fjármagni en hætti að líta á sig sem þjónustustofnanir við samfélagið. Ég er ekki að tala fyrir því nema síður sé að ráðist sé í einhver óarðbær eða óskynsamleg verkefni. En auðvitað eiga fjármálastofnanir að líta á sig sem þjónustustofnanir í bland. Nú eru menn að tala um að efla þurfi Byggðastofnun í þessu efni.

Hvaða form sem við finnum þessu þá teljum við mikilvægt að tryggja atvinnulífinu aðgengi að ódýru og tryggu uppbyggingarfjármagni.

Í þriðja lagi leggjum við áherslu á að styrkja sveitarfélögin og skapa þeim traustari undirstöður en þau hafa haft. Á þetta er allt saman minnst í þessum tillögum og greinargerðum. En eins og ég rakti í fyrri ræðu minni hefur hagur sveitarfélaganna verið að versna allan undanfarinn áratug. Það birtist okkur m.a. í því að hlutfall rekstrar af skatttekjum hefur verið að aukast. Það var árið 1995 77,9% en á árinu 2000 komið í 83,3%. Þetta þýðir að sveitarfélögin hafa miklu minna fjármagn til uppbyggingar en þau áður höfðu. Þessu hefur fylgt aukin skuldsetning sveitarfélaganna sem hefur meira en tvöfaldast á síðasta áratug. Ríkið hefur verið að færa verkefni frá sjálfu sér og yfir á herðar sveitarfélaganna án þess að tryggja nægilega tekjustofna til að rísa undir kostnaði við þennan rekstur. Má nefna grunnskólann í því sambandi, sem hefur reynst sveitarfélögunum erfiður.

Þetta eru þær áherslur sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum og á þennan hátt teljum við að hægt sé að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi Íslendinga, fjölbreytni um allt land.