Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:27:26 (5203)

2002-02-26 20:27:26# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:27]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjuefni að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli kominn í þingsalinn og geta tekið þátt í umræðum. Hans hefur verið sárt saknað hér í dag vegna þess að víða hefur umræðan farið og m.a. nálgast nokkuð stofnun sem hann er í formennsku fyrir, þ.e. Byggðastofnun. Sérstaklega hafa verið áberandi ummæli tveggja hv. þm. Sjálfstfl. um Byggðastofnun. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort hann sé sammála því mati þessara tveggja hv. þm. að Byggðastofnun, eins og annar hv. þm. sagði, væri að liðast í sundur eftir flutning til Sauðárkróks. Og ef ég vitna svo til hins þingmannsins, þ.e. hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þá sagði hann að ljóst lægi fyrir að ríkisstjórnin treysti ekki Byggðastofnun fyrir ákveðnum sjóði. Hann var ekki nefndur en væntanlega hefur það verið nýsköpunarmiðstöð. Lítur hv. þm. þannig á að ríkisstjórnin treysti ekki Byggðastofnun fyrir nýsköpunarmiðstöðinni með því að leggja fram tillögu um að hún verði sett upp á Akureyri?