Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:35:33 (5210)

2002-02-26 20:35:33# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:35]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er út af fyrir sig alveg laukrétt hjá hv. þm. Þegar menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að stýra þróuninni með aðgerðum og stefnumörkun eru menn búnir að stíga stærsta skrefið. Hitt er svo mönnum líka ljóst þegar þeir fara að skoða málið að þau tæki sem duga best til að stýra þróuninni lúta að því að dreifa fjármagni, jafna lífskjör og byggja upp atvinnulíf.

Í þessari þáltill. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að setja 1.000 millj. á fjögurra ára tímabili til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert þótt það sé minna fé en var á síðasta fjögurra ára tímabili. En það þarf miklu meira fé. Gleymum því ekki að Landsbankinn fjárfesti í Íslandssíma fyrir 1.000 millj. á síðasta ári, í einu fyrirtæki í atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf miklu meira fé og þá líka náum við miklu meiri árangri.