Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:36:48 (5211)

2002-02-26 20:36:48# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér er vísað í fjármuni. Engu að síður var það áberandi í gagnrýni ýmissa stjórnarþingmanna á þáltill. og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum að það skorti nokkuð sem væri naglfast. Þannig orðuðu það ýmsir. Tekur hv. þm. undir þá gagnrýni?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort ekki megi rekja þá byggðaröskun sem hér hefur orðið til stefnu stjórnvalda í fiskveiðimálum, í skattamálum, þá með hliðsjón af flutningum verkefna frá ríki til sveitarfélaga og með einkavæðingu sem óumdeilanlega hefur grafið undan stoðþjónustu í landinu.

Nú ætla ég ekki að hafa það af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hann hefur verið mjög einarður talsmaður landsbyggðarinnar og gagnrýnt stefnu stjórnvalda í fiskveiðimálum og í þeim þáttum öðrum sem ég hef nefnt. En er þetta ekki áfellisdómur, sú byggðaröskun sem hér hefur átt sér stað, yfir þeirri stefnu sem hér hefur verið fylgt í rúman áratug?