Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:43:51 (5217)

2002-02-26 20:43:51# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:43]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er æðimikill munur á því hvort menn hafa mismunandi sjónarmið eða hvort forustumenn stjórnarflokka, í þessu tilfelli annars vegar ráðherra og hins vegar form. þingflokks viðkomandi flokks og forustumaður fyrir Byggðastofnun --- við erum að tala um byggðamál --- eru algjörlega ósammála um það hvernig aðalgrunnurinn eigi að vera undir þessu og ósammála um tillögur sem hafa komið frá ríkisstjórninni um það að taka verkefni frá Byggðastofnun. Mér finnst ekki að hér sé verið að tala um nein smámál. Og ég verð að segja alveg eins og er að það kemur mér mikið á óvart ef hv. þm. er svo barnalega bjartsýnn að hann haldi að iðnn. muni kippa öllu í liðinn sem honum hefur ekki tekist að fá í gegn í viðræðum við ráðherra sinn og við þá ríkisstjórn sem hann styður. Ég held að miklu erfiðara mál sé á ferðinni en svo að hægt sé að ná niðurstöðu með því að ræða það í iðnn.