Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:45:07 (5218)

2002-02-26 20:45:07# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:45]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vék að því í ræðu minni áðan að ég væri hissa á að Reykjavíkurborg hefði ekki komið að gerð þessarar byggðaáætlunar. Ég tek heils hugar undir með hv. 3. þm. Vestf. með að byggðastefnan í landinu hlýtur að lúta að landinu öllu og byggðinni þar. Það er ekki ávinningur höfuðborgarinnar að allir flytjist af landsbyggðinni þangað. Borgaryfirvöld hafa ekki haft undan að reisa skóla og byggja ný hverfi. Þau hafa að staðið sig mjög vel í því og við lýsum ánægju með það mörg hver í þingsölum. Engu að síður er betra að fólk búi víðs vegar um landið.

Meðal þess sem talað er um í byggðamálum er fjarnám. Fjarnám er mjög mikilvægt, sérstaklega þar sem framhaldsskóla verður ekki við komið, þar sem fólk getur verið í sambandi við skóla í fjarlægum landshlutum og tekið hina ýmsu áfanga í framhaldsskólum. En það má ekki kosta óhemju fé. Ég þekki verkakonu sem langar í fjarnám en það er töluvert dýrt. Ég vildi gjarnan sjá þess stað í þessari þáltill., þegar hún kemur fullbætt frá þingmönnum Framsfl. og Sjálfstfl. og fleiri þingmönnum sem ætla sér greinilega miklar breytingar á þessu skjali, að þeir sem eru í fjarnámi, jafnvel á aldrinum 16--18 ára, þurfi ekki að borga skólagjöld eins og nú er greitt fyrir að stunda fjarnám, sérstök gjöld.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að tryggingagjald verði lækkað á næstunni á fyrirtækjum úti á landi. Það hefur verið rætt víðs vegar um land að tryggingagjaldið, breytingin sem varð á því fyrir fáeinum vikum með lögum frá Alþingi, komi verr út fyrir landsbyggðina og landsbyggðarfyrirtækin.

Ég spyr líka: Verður það að veruleika innan þriggja ára, hæstv. forseti, að þeir sem greiða námslán og búa úti á landi þurfi ekki að greiða jafnháar afborganir af þeim og þeir sem búa á Reykjavíkursvæðinu? Verður þetta áþreifanleg byggðaaðgerð eða er þetta draumsýn eins og kemur fram í kvæðinu: ,,Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg``? Hvað er hér á ferðinni?

Í grg. með þáltill. kemur fram að huga þurfi að stöðu nokkurra fámennra byggðarlaga sem háð séu útgerð smábáta. Hvað er átt við með þessum orðum? Ég ítreka þær spurningar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur borið hér fram. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að við munum gefa frelsi á veiðar smábáta sem róa frá byggðum sem eru gjörsamlega háðar þeim atvinnuvegi, smábátaútgerð? Eða þýðir þetta að það eigi bara að huga að því og gera ekkert? Er þessi sögn, ,,að huga`` til huggunar, til að skapa vonir eða er það raunverulegt?

Talað hefur verið um að íbúar Akureyrarsvæðisins eigi að verða 45 þús. Þá vaknar spurningin: Hvenær á þetta vaxtartakmark að nást? Hvenær er gert ráð fyrir því að íbúar Akureyrarsvæðisins verði orðnir 45 þús. og er þá reiknað með því að þeir muni fjölga sér svona mikið sjálfir, sem búa á þessu svæði, eða er gert ráð fyrir því að fólk flytji af öðrum landshlutum til svæðisins, t.d. úr Skagafirði? Munu þeir sem búa í Skagafirði flytja til Akureyrar og þeir sem búa í Þingeyjarsýslum streyma þangað, eða Vestfirðingar? Það er ýmislegt sem vekur spurningar í þessu.

Ég tek undir að í þessari till. til þál. um stefnu í byggðamálum eru mörg háleit markmið. En hver á að vera framkvæmdin? Hvaðan á fjármagnið allt að koma og hvernig ætla menn að framkvæma þessa hluti? Það kom fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að gert væri ráð fyrir minni fjármunum í þessa byggðaáætlun en hina fyrri, ef ég tók rétt eftir. Það vekur mann til umhugsunar um hvort áhugi á byggðamálum hjá ríkisstjórninni sé enginn. (Iðnrh.: Það er ekki rétt.) Þá verður að leiðrétta það hér.

En mig langar til að spyrja að lokum: Hvað eru ráðherrar Sjálfstfl. að hugsa? Eru þeir ekki í neinu sambandi við þingmenn sína, félaga sína í Sjálfstfl.? Tala menn bara út og suður? Þær ræður sem hafa verið fluttar hér af sjálfstæðismönnum hafa vakið furðu mína. Mörgum hafa jafnvel fundist þær dónalegar í garð hæstv. iðnrh. þar sem ráðist hefur verið á hana og margoft ómaklega að mínu viti.