Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:53:27 (5219)

2002-02-26 20:53:27# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:53]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er orðið áliðið og ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en get ekki látið hjá líða að fara yfir vissa þætti málsins.

Ég vitna sérstaklega í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem er lykilmaður í vinnu ríkisstjórnarinnar að þessum málum, varaformaður fjárln. og talsmaður Sjálfstfl. í fjármálum, þegar kemur að fjárhag ríkisins. Hann lýsti því yfir í dag að menn stæðu frammi fyrir því að geta ekki haft áhrif á hvernig stjórnkerfi landsins virkaði.

Ég held að eitt af því sem við þurfum að taka til alvarlegrar umræðu í hv. iðnn. og komast að einhverri niðurstöðu um sé hvort yfir höfuð sé áhugi á að stjórna málum í þessu landi. Eins og þróunin hefur verið sl. tíu ár stendur það upp úr hverjum manni á hv. Alþingi, þ.e. stjórnarliðum, að þetta sé þróunin, eitthvað óumflýjanlegt og óviðráðanlegt. Þróunin verður vegna breytinga sem gerðar hafa verið í þessu samfélagi, klárlega, breytinga til markaðsvæðingar á grunnstoðkerfi landsins. Ég er ekki í neinum vafa, virðulegi forseti, um að það er stóri þátturinn í þeirri hröðu byggðaröskun sem orðið hefur í þessu landi ásamt fiskveiðistjórnarkerfinu. Það eru svo hræðileg skilaboð til fólks í hinum dreifðu byggðum að dregið sé úr þessari félagsþjónustu í stoðkerfinu. Menn eru hræddir um að missa þjónustuna, sem er einkavædd. Þeir horfa fram á það þessa mánuðina og missirin, og það eru e.t.v. verstu skilaboðin sem við stöndum frammi fyrir.

Ég held að í allri þessari umræðu um framtíðarsýn okkar varðandi þróun byggðarinnar verðum við að fara ofan í þessi mál vegna þess, virðulegi forseti, að blómlegt líf í hinum dreifðu byggðum landsins mun ekki endast nema þar sé grunnur til að menn geti unnið þar, starfað og dafnað á eigin forsendum. Í umræðunni í dag hafa stjórnarliðar gripið til þess ráðs að tala um framlög, framlög ríkisins, til að milda sársaukann af því sem menn hafa gert á síðustu tíu árum. Það er ekki sú sýn sem okkur ber að hafa.

Menn verða að byggja á sjálfstæði, á grunni sem getur leitt þá til framfara á eigin forsendum. Það verður ekki gert með styrkjum. Þess vegna er mikilvægt að leiðrétta það sem farið hefur aflaga í samfélaginu. Við getum þar nefnt t.d. flutningamálin. Í því efni eru menn mjög uggandi, jafnvel í þeim fyrirtækjum sem starfa úti á landi í dag. Við vitum hverjar afleiðingarnar urðu af því að hleypa frjálsum markaðsöflum í flugið á sínum tíma. Það setti bæði félögin sem kepptu harðast hér um bil á hausinn. Afleiðingin er hrikaleg fyrir hinar dreifðu byggðir og náttúrlega sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna. Það var vitað að ef menn hleyptu markaðsöflunum inn á þennan hátt mundu þessir tveir aðilar éta sig upp. Afleiðingarnar eru náttúrlega að flogið er til færri staða úti á landi fyrir óheyrilegt verð. Þetta er það sem við uppskárum.

Við höfum aldrei verið feimnir við að segja það hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við viljum stýra svona hlutum. Við viljum byggja á sérleyfum og einkaleyfum þar sem fyrirséð er að markaðsöflin þjóna ekki þeim tilgangi sem við sækjumst eftir. Það sem gerðist í fluginu er himinklárt dæmi. Í rauninni er það líka himinklárt dæmi, sjóflutningarnir þar sem aukinn kostnaður fyrirtækjanna úti á landi verður til vegna samkeppninnar. Ríkisskip eru farin út, hætt er að sigla á ströndina og menn standa í gríðarlegum vandræðum við að fá til sín afurðir og vörur og senda frá sér verðmæti. Við það er gríðarlegur kostnaður.

Ríkisstjórn sem framkallar svona kerfisbreytingar í grunnstoðkerfinu hefði auðvitað átt að koma með eitthvað á móti. Ég held að það hefði gerst í öllum öðrum löndum, a.m.k. gerist það suður í Þýskalandi ef menn framkalla svo stórkostlegar breytingar sem hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar. Það væri svo sem virðingarvert ef menn segðu bara á móti: Ja, við ætlum að gera þetta svona en þið fáið peninga á móti á annan hátt vegna þess að við trúum á markaðinn.

En það er ekki gert. Það er heilög trú hér í þinginu að sem minnst megi skipta sér af þessu, heilög trú. Þess vegna birtist vilji stjórnvalda í smápeningum í framlög til hinna dreifðu byggða, hvort sem það er til uppbyggingar eða aukningar á starfsemi á vegum ríkisins í grunnþjónustu eða til uppbyggingar í atvinnulífinu. Það eru smápeningar.

Á sama tíma loka menn augunum fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu er beint og óbeint verið að nota opinbert fé. En það er aldrei talað um það. Landssíminn er búinn að fjárfesta á þessu tímabili fyrir hundruð milljóna í sprotafyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, ætli þau séu ekki 10--15? Eftir því sem ég best veit er það ígildi alls framlagsins til atvinnuuppbyggingar úti á landi, bara það dæmi. (Iðnrh.: Það er ekki opinbert fé.) Er það ekki opinbert fé? Auðvitað er það opinbert fé. Á þeim tíma sem þær fjárfestingar eru ákveðnar hefur ríkisstjórn Íslands og hið háa Alþingi full yfirráð yfir öllum hlutabréfum í Landssíma Íslands, auðvitað eru það opinberir aðilar. Hvað eru opinberir aðilar? Hverjir hafa stjórnað? Það er bara þannig.

Fjárfesting Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, á grunni sjóðanna sem landsbyggðin að langmestum hluta byggði upp og settir voru inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, hundruð milljóna króna og milljarðar, hvar er hún? Þær fjárfestingar eru allar á þessu svæði en vegna kerfisbreytinganna telur hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar sig hafa algjöra fjarvistarsönnun, eins og hér kom fram í frammíkalli hæstv. iðnrh. Það að hlutafélagavæða gefur hæstv. ríkisstjórn fjarvistarsönnun og þannig kemst hún hjá því að stjórna. Það eru aðrir sem eiga að stjórna, aðrir sem eiga að ráðstafa og er gefið umboð til þess. Þeir sem ráðstafa þessum fjármunum eru hér. Það er hluti af þensluvandanum.

Ég er ansi hræddur um, virðulegi forseti, að við þurfum að taka þessi mál algjörlega heildstætt og ræða þau augliti til auglitis og taka allan pakkann undir, minna dugir ekki. Annars fer illa fyrir Íslandi. Það er borðleggjandi. Það eru færri ár í að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda ef við getum ekki sameinast um að hefja til vegs og virðingar leikreglur sem byggja á nýjum grunni hvað varðar stjórn þessara mála.