Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:01:47 (5220)

2002-02-26 21:01:47# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á einum kafla í greinargerð þessarar till. til þál. Hann er á bls. 23 og fjallar um atvinnu- og samfélagsþróun. Ég tel að þar sé vakin athygli á þróun sem er mjög mikið umhugsunarefni.

Fram kemur í þessum kafla að miklar breytingar hafi orðið á meðaltekjum í landinu eða á landsbyggðinni má segja, einstökum svæðum þess, og að vaxandi munur er orðinn á atvinnu- og eignaþróun síðustu árin. Það kemur fram, eins og segir í skýrslunni, að tekju- og eignabil milli manna virðist hafa aukist í þjóðfélaginu. Þar segir líka, með leyfi forseta:

,,Margt bendir til að tekju- og eignabilið í þjóðfélaginu muni halda áfram að aukast á næstu árum. Það eykur hættuna á að þjóðfélagslegt misrétti aukist og að ýmis þjóðfélagsleg vandamál verði erfiðari úrlausnar. Meðal annars eykur þetta bilið milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar þar sem eignarhald á fyrirtækjum og hlutabréfum þjappast í æ ríkari mæli saman á fyrrnefnda svæðinu. Fyrirtæki á landsbyggðinni eru nú í mun meira mæli en áður í eigu annarra en heimamanna. ... Eignaskiptingin í landinu tengist orðið æ meira búsetu. Þeir eignameiri búa flestir á höfuðborgarsvæðinu.``

Þetta er þróun sem er mikið umhugsunarefni og ég tel afar ískyggilega. Þetta tengist mjög mikið þróuninni í sjávarútvegi þar sem samþjöppunin í sjávarútvegi hefur verið mjög hröð á síðustu árum og hún kemur mjög berlega fram í þessu mati skýrsluhöfundar.

Ég held að stjórnvöld verði að taka þessar viðvaranir mjög alvarlega því þegar tekjubil og eignabil eykst í þjóðfélaginu þá er vaxandi hætta á að misrétti aukist í kjölfarið. Þá er líka vaxandi hætta á óeiningu í kjölfar vaxandi misréttis. Það er afleitt í sjálfu sér og enn verra er þegar það fær þann svip að vera staðbundið. Ég held því að þarna séu dregnar upp viðvaranir sem stjórnvöld og við alþingismenn eigum að taka eftir og taka mjög alvarlega.

Nefnt er dæmi um þessa þróun á Vestfjörðum sem um langt árabil hafa verið það svæði landsins þar sem meðaltekjur hafa verið þær hæstu. Árið 1995 voru meðaltekjur þá sem oft áður þær hæstu á landinu á Vestfjörðum og voru 11% yfir landsmeðaltali eða 111 miðað við vísitölu atvinnutekna. Aðeins fimm árum seinna, árið 2000, var þessi vísitala atvinnutekna 92. Meðaltekjur voru þá 8% undir landsmeðaltali. Þannig að breytingin á aðeins fimm árum er úr því að vera 11% yfir landsmeðaltali í að vera 8% undir landsmeðaltali. Þetta er gríðarlega hröð þróun og m.a. ástæðan fyrir þessum viðvörunarorðum sem ég var að vekja athygli á í skýrslunni. Engum blöðum er um það að fletta að á Vestfjörðum er ástæðan fyrir þessari þróun breytingar í sjávarútveginum.

Önnur skýrsla sem hér er ekki til umræðu en kom út á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands heitir ef ég man rétt Tekjuskipting á Íslandi, eða eitthvað slíkt. Af þeirri skýrslu má sjá að skýrsluhöfundar benda á að tilflutningur kvóta á milli byggðarlaga hafi mikil áhrif á jöfnuð og ójöfnuð tekna í viðkomandi byggðarlagi á þann veg að í þeim byggðarlögum sem kvóti fluttist frá jókst jöfnuður tekna með því að þeir sem voru tekjuháir fóru út, meðaltekjurnar lækkuðu og munurinn minnkaði. En aftur í þeim byggðarlögum sem bættu við sig kvóta jókst tekjuójöfnuðurinn vegna þess að við bættust einstaklingar í kjölfar flutningsins sem höfðu atvinnu af því í sjávarútvegi og höfðu mjög háar tekjur. Það eru að koma fram gögn frá opinberum aðilum sem leiða einmitt í ljós áhrifin af flutningi fiskveiðikvóta milli byggðarlaga á tekjur þeirra byggðarlaga sem koma svo mjög sterkt fram í þessum upplýsingum um meðaltekjur á Vestfjörðum vegna þess að sá landshluti er svo mjög háður sjávarútvegi.

Það er einmitt líka í sjávarútvegi sem samþjöppun á eignarhaldi hefur orðið svo hröð. Það er svo ástæðan fyrir viðvörunarorðunum í skýrslunni, þ.e. að eignarhald á fyrirtækjum og hlutabréfum séu að þjappast í æ ríkara mæli saman á höfuðborgarsvæðinu. Ég held því að stjórnvöld eigi í aðgerðum sínum í framhaldi af þessu einmitt að taka mið af þessum viðvörunarorðum og þeim upplýsingum sem fram hafa komið um ástæður fyrir þessari tekjuþróun og leitast við að taka á þessum áhrifaþáttum til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum sem gætu orðið ef þróunin heldur áfram eins og verið hefur.

Herra forseti. Ég vil einnig segja að ég tel að stoðkerfi atvinnulífsins þoli verulega uppstokkun. Vakin hefur verið athygli á því á undanförnum árum, m.a. af hálfu Byggðastofnunar, og vel hefur undir það verið tekið og m.a. hafa þau viðhorf notið stuðnings í ríkisstjórninni. Ég tel að við eigum við þessi tímamót þegar við erum að móta okkur nýja stefnu að taka á því að breyta stoðkerfi atvinnuveganna á þann veg að það skili meiri árangri en það gerir í dag. Við erum með marga sjóði sem sumir eru litlir og við eigum að huga að sameiningu þeirra. Með því að sameina suma þeirra gætum við augljóslega náð miklu betri árangri í að beita þeim til atvinnuuppbyggingar en við gerum nú.

Ég vek athygli á því að með því að sameina Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (Forseti hringir.) yrði til sjóður og stofnun sem hefði verulega aukið bolmagn á við þessar tvær stofnanir hvora í sínu lagi.