Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:11:29 (5222)

2002-02-26 21:11:29# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:11]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig hugsanlegt að fólk flytji af landi brott. Við þekkjum tímabil í Íslandssögunni þar sem atvinnuástand hefur verið slíkt að fólk hefur leitað í verulegum mæli til útlanda eftir atvinnu, t.d. eftir síldarleysisárin 1967--1968. Þá fluttu mjög margir og fengu sér vinnu erlendis, m.a. á Norðurlöndum. Slíkt getur komið fyrir á nýjan leik. Við getum aldrei útilokað það.

Hins vegar hefur staðan á síðustu árum verið slík að höfuðborgarsvæðið hefur verið mjög öflugt. Það hefur dregið til sín fólk frá útlöndum frekar en hitt, m.a. fyrir tilstuðlan opinberra aðila. Við skulum ekki gleyma því að það fyrirtæki sem hefur átt stóran þátt í því að þessi þróun hefur verið jákvæð varðandi flutning menntaðs fólks til landsins er Íslensk erfðagreining. Það fyrirtæki á tilvist sína fyrst og fremst að þakka opinberum aðilum.