Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:17:12 (5227)

2002-02-26 21:17:12# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:17]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég varð ekki var við að hv. þm. benti á naglföst atriði, og ég er sammála hv. þm. að engin naglföst atriði eru í þessari byggðaáætlun sem hægt er að benda á fyrir það fólk sem horfir á þann vanda sem nú er.

Samfara þessum mikla tekjumun hafa orðið miklir flutningar og samrunar í fyrirtækjum. Oftrú, trúin á mátt stærðar fyrirtækjanna hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa horfið af vettvangi og sameinast öðrum stærri og þar hafa þá líka stjórnendur, hátekjufólkið, farið burt með togurunum, með skipunum.

Ég hef áhyggjur af fjárhag sveitarfélaganna en þeim er einmitt ætlað stórt hlutverk í hinni nýju byggðaáætlun. En verði ekki snúningur hér á þá eiga þau engan annan kost en að selja eignir sínar til þess að standa undir brýnustu þjónustu.

Ég sé ekki í byggðaáætluninni neitt sem bendir á naglfasta lausn eða leið fyrir sveitarfélögin í landinu.