Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:18:28 (5228)

2002-02-26 21:18:28# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom kannski sjálfur að því atriði sem segja má að sé naglfast, naglföst aðgerð ríkisstjórnarinnar til að styrkja hag sveitarfélaga á veikum svæðum landsins. (JB: Kaupa Orkubúið?) Ég minni á að ríkisvaldið er að kaupa hlut sveitarfélaganna á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða fyrir mjög hátt verð. Sú aðgerð gjörbreytir stöðu sveitarfélaga, fjárhagslegri stöðu þeirra og gefur þeim færi á að sækja fram til sóknar, m.a. í atvinnumálum sinna sveitarfélaga.

Það hefur nú jafnan þótt mikil snilld og vel að verki staðið af hálfu sveitarfélaga eða þess aðila sem selur að geta selt sama hlutinn tvisvar. Sveitarfélög á Vestfjörðum eru í þeirri stöðu að þau eru í raun að selja ríkisvaldinu hlut sem þau eiga skuldlaust vegna þess að það sama ríkisvald yfirtók allar langtímaskuldir Orkubús Vestfjarða fyrir nokkrum árum.