Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:23:43 (5233)

2002-02-26 21:23:43# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:23]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt sem dregið var hér fram af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um tekjuþróunina á Vestfjörðum. Við henni var varað í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 og ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi mjög sterklega tekið undir það sem ég sagði þá, m.a. að sú hætta sem steðjaði að Vestfjörðum með því að þeir misstu frá sér veiðiheimildir, m.a. fyrirtækis eins og Básafells, gæti haft afgerandi áhrif á stöðu byggðanna.

Ég get sagt það hér í þessum ræðustól að því miður virtust bæjarstjórnarmenn á Ísafirði á þeim tíma ekki átta sig á því hvað verið var að tala um og töldu að það væri allt í lagi með fyrirtækið Básafell og að aflaheimildir þess yrðu áfram til staðar á Ísafirði. Því miður fór það ekki svo.

Ég verð hins vegar að segja að búið er að skrifa nóg af skýrslum. Skýrsla kom fram frá Byggðastofnun 1999 í nóvember um breytingar á kvótaeign á landsbyggðinni og fleiri skýrslur hafa komið fram sem hér hefur verið vitnað til. Herra forseti. Búið er að skrifa marga texta um það hvernig ríkisstjórnin gæti lagað ástandið á landinu en því hefur ekki verið fylgt eftir.