Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:25:19 (5234)

2002-02-26 21:25:19# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:25]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þá er nú komið að lokum fyrri umræðu um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Hér hefur mikið verið rætt eins og eðlilegt er og margt ágætt verið sagt. Almennt séð lít ég svo á að viðhorf hv. þingmanna séu tiltölulega jákvæð gagnvart þeim tillögum sem hér eru kynntar og vil þakka fyrir það.

En eins og augljóst var fyrir fram er ekki algjör samstaða um þetta mál og mjög skiljanlegt að það sé ekki vegna þess að þetta er þannig málaflokkur að allir eru með miklar skoðanir á því hvernig bregðast eigi við þessum vanda. Almennt eru menn með miklar skoðanir sem tengjast heimahögum þeirra, kjördæmi þeirra, og hefur það mjög svo komið fram í umræðunni og ekki laust við að myndast hafi samkeppni á milli ákveðinna þingmanna, sérstaklega þingmanna Vestfjarða.

En það er nú þannig með þennan málaflokk eins og svo marga aðra að það er ekki svo þægilegt að ná samstöðu nema menn séu tilbúnir að gefa eitthvað eftir. Og þannig er þetta í stjórnmálunum að við náum sjaldnast öllu því fram sem við viljum en allir reyndir stjórnmálamenn vita að til þess að hafa áhrif þurfa þeir yfirleitt að gefa eftir.

Ég greindi frá því fyrr í dag að þetta væri ekki nákvæmlega eins og ég hefði skrifað þetta ein en ég hef unnið að því að ná samstöðu við þá einstaklinga sem hafa unnið vinnuna og þar að auki náttúrlega fyrst og fremst náð samstöðu við ellefu ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Það getur verið erfitt að ná samstöðu við sjö menn eða sex og erfitt getur verið að ná samstöðu við ellefu menn og enn þá erfiðara að ná samstöðu við 62 menn ef þeir eru ekki tilbúnir til þess að gefa neitt eftir.

En fram undan er vinna í iðnn. í sambandi við tillöguna og mér finnst jákvætt hvað fólk hefur sýnt henni mikinn áhuga, hvað sveitarstjórnarmenn hafa sýnt henni mikinn áhuga, hvað margar hugmyndir og væntingar hafa borist um það að taka þátt í verkefnum, t.d. eins og verkefni sem ekkert hefur verið nefnt hér í dag, verkefnið um rafrænt samfélag. Borist hafa þó nokkrar umsóknir um að fá að vera með í því verkefni og það finnst mér sýna hugarfar sem ég kann vel að meta þegar fólk lítur á plagg sem þetta sem tækifæri til að bæta úr í sínum ranni, og það vona ég að flestir vilji.

En þeir sem hafa gagnrýnt hafa ekki endilega allir bent á úrræði eða úrbætur heldur talað almennt um það að eitthvað meira bitastætt vanti, eitthvað sem meira er hönd á festandi, eitthvað naglfast, og það er kannski von að þau sjónarmið komi fram vegna þess að tillagan er sett fram á allt annan máta en áður hefur verið gert og þá þurfa hv. þm. að venjast því. Ég hef líka trú á að eftir því sem þeir lesa þetta plagg betur þá átti þeir sig á að hér er svo sannarlega um metnaðarfullar tillögur að ræða og það sem er líka nýjung og ég hef nefnt er það að að þessu sinni er aðgerðaáætlun þar sem eitt ráðuneyti er gert ábyrgt eða ein stofnun fyrir því að viðkomandi tillaga nái fram að ganga og eins er reiknað með að verkefnisstjórn muni starfa hér sem verði skipuð fulltrúum ráðuneytanna og hún haldi utan um framkvæmdina. Mér finnst að betur sé staðið að því að reyna að láta málið ganga eftir heldur en almennt hefur verið, en auðvitað verður þetta allt saman að koma í ljós.

[21:30]

Að það vanti eitthvað naglfast í tillöguna til þess að fjárln. geti komið málum til framkvæmda finnst mér vera byggt á misskilningi, og það hef ég tekið fram áður í umræðunni, vegna þess að að sjálfsögðu munu þessar tillögur verða fluttar í tengslum við fjárlagafrv., í tengslum við fjárlögin. Þess vegna verður ekki eins mikil þörf fyrir það og hefur verið að fjárln. reddi málum. Ég geri ekki lítið úr því sem fjárln. hefur verið að vinna í sambandi við byggðamál og tel að það hafi verið margt mjög gott og alveg full ástæða er til þess að þakka það. Engu að síður er það þannig að vegna þess að fjárlagafrv. hefur ekki verið nægilega metnaðarfullt hvað varðar byggðamál þá hefur það ekki síst verið fjárln. sem hefur komið með tillögur þar til úrbóta. Því getur vel verið að einhver missi spón úr sínum aski við þetta. En við skulum vona að það verði bara jákvætt fyrir landsbyggðina.

Í þessum tillögum er reynt að komast út úr farvegi smáskammtalækninga. Þetta eru því almennar tillögur sem ná til landsins alls. Tuttugu af þeim 22 sem eru settar hér fram sem aðgerðatillögur ná til landsins alls. Tvær eru meira staðbundnar. Það held ég að hljóti að vera jákvætt og þess vegna tek ég ekki undir það sem kom hér fram um að betra væri að gera svæðisbundnar áætlanir en að hafa þær almennt orðaðar. Að sjálfsögðu fara svo úrræðin oft og tíðum eftir aðstæðum á viðkomandi stað. Það er náttúrlega augljóst í sambandi við tillöguna um milljarðinn að það fer eftir aðstæðum og hugmyndum viðkomandi aðila í byggðarlögunum hvert fjármagnið leitar. Þess vegna er mjög mikilvægt að landsbyggðarfólk geri sér grein fyrir því að það fær þetta ekkert endilega upp í hendurnar. Það þarf sjálft að móta tillögur og vinna að þeim með þeim fagaðilum sem þarna munu halda utan um fjármagnið.

Ég vil ekki taka undir það sem kom hér fram hjá einum hv. þm., að í raun mætti segja að tillögugreinin sjálf lýsti hörmulegu ástandi landsbyggðarinnar. Ég get alveg ómögulega tekið undir það að þetta sé svona alvarlegt, vegna þess að það er það ekki. Til eru staðir þar sem erfitt er. En heilt yfir þá er ástandið langt frá því að vera hörmulegt. Ég tel mig alveg vera í stakk búna til þess að segja þetta vegna þess að ég ferðast mikið um landsbyggðina, fyrir utan það að ég á heima þar. Það er ekki hægt að nota þessi orð um ástandið þó svo að við viljum að sjálfsögðu gera betur og þess vegna eru þessar tillögur settar fram.

Ég vil heldur ekki taka undir það þegar hv. þm. segja að beinar tillögur vanti. Hins vegar er rétt að sumt af því sem við ætlum okkur að gera er sett í athugun vegna þess að ekki eru til nægilega miklar upplýsingar um það t.d. hver munurinn á starfsaðstæðum fyrirtækja á landsbyggðinni sé miðað við höfuðborgarsvæðið og eins búsetuskilyrðum fólks á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið. Eins má segja að ástandið sé mjög mismunandi á landsbyggðinni þegar við lítum á búsetuskilyrði. Svæði á landsbyggðinni standa mjög sterkt að vígi hvað þau varðar, en önnur lakar. Ég held að ekki sé hægt að gagnrýna það að við viljum fara vandlega í þetta til að vita meira um ástandið áður en beinar tillögur koma fram um aðgerðir.

Þó nokkuð mikið er talað um það, sérstaklega af hálfu Vinstri grænna, að einkavæðingarstefnan sé bölvaldur alls. Þetta hljómar býsna vel í eyrum margra sem eru tregir til að fallast á að rétt sé að selja ríkisfyrirtæki. En mér finnst þetta ekki sanngjarnt og ekki vel rökstutt. Ekki er nú búið að selja Póstinn t.d. neitt. Þar hefur óneitanlega verið samdráttur og fólki hefur fækkað vegna þeirrar byltingar sem hefur átt sér stað hvað varðar þennan málaflokk. Fólk er bara ekkert að senda bréf eins og það gerði í gamla daga. Sá tími er bókstaflega liðinn. Eins og við vitum fóru þingmenn landsbyggðarinnar aldrei í kjördæmi sín allan heila veturinn, allt heila þingið, en sendu hins vegar bréf og fengu líka mikið af bréfum. Við þingmenn fáum bréf en við fáum þau ekki í pósti almennt heldur miklu meira í gegnum tölvur eða faxtæki. Bara þetta t.d. breytir mjög þessari þjónustu. Ég veit að fólkið á landsbyggðinni vill ekkert vera á opinberu framfæri ríkisins. Það vill það ekki. Það vill hafa störf. Við getum ekkert boðið þessu fólki upp á að sitja á pósthúsunum án þess að hafa starf. Ég var nýlega stödd á tiltölulega litlum stað úti á landi, fyrir eins og tveimur dögum síðan. Þar sagði ágætur starfsmaður Póstsins einmitt frá því að þarna hefði gjörsamlega verið um byltingu að ræða í sambandi við þessa þjónustu. Að sjálfsögðu hefði líka verið um fækkun að ræða í starfsmannahaldi. En hún leit nú á það sem hlut sem ekki væri hægt að horfa fram hjá að yrði að eiga sér stað miðað við það hvað umsvif starfsins höfðu minnkað.

Hvað varðar Símann, þá hafa verið teknar ákvarðanir um það af hálfu stjórnarflokkanna að í tengslum við söluna á Símanum verði verulegu af því fjármagni varið til þess að byggja upp fjarskiptakerfið. Eins er myndarlega tekið á þeim málum í tillögunni sem ég tel að sé nú ein af mikilvægari tillögum.

Það er náttúrlega talað um sjávarútvegsstefnuna í tengslum við byggðamál og það er ekki óeðlilegt þó svo að umræða um þann málaflokk eigi nú fyrst og fremst eftir að fara fram síðar í vikunni. En það er rétt að halda því til haga að með þeim tillögum sem nú hafa verið kynntar af hæstv. sjútvrh. eru pottarnir orðnir þrír til þess að takast á við þann vanda sem kemur upp á landsbyggðinni þegar um það er að ræða að kvóti fer úr byggðarlögunum. Það er gamli 1.500 tonna potturinn sem Byggðastofnun úthlutaði. Það er 2.300 tonna pottur í tengslum við smábátalögin. Og síðan er nýr 1.500 tonna pottur í tengslum við það frv. sem nú hefur verið kynnt. Allt er þetta hugsað til þess að bregðast við á þeim stöðum þar sem erfiðleikar koma upp vegna sjávarútvegsstefnunnar og vegna þess að ákveðin markaðshugsun er drifkrafturinn í því sjávarútvegsfyrirkomulagi sem við búum við í dag. Ég held því fram að þannig verði það að vera til þess að þessi atvinnugrein geti rekið sig og hún þarf að geta rekið sig með hagnaði til þess að aðrir þættir samfélagsins gangi upp og ekki síst á landsbyggðinni.

Ég neita því að það fari minna fé til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni með þessum tillögum en hefur verið, vegna þess að það er ekki bara að líta á þennan milljarð sem kemur fram í tillögunni um nýsköpunina heldur eru margar aðrar tillögur sem kosta líka peninga og eru hugsaðar til þess að styrkja landsbyggðina.

Ég er ekki sammála þeim sem tala um sérstaka byggðastefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Kannski er það bara vegna þess að það er ekkert sérstakt áhugamál mitt. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt að að sjálfsögðu er það skylda stjórnvalda númer eitt að sjá til þess að Ísland sem slíkt sé samkeppnishæft. Að því höfum við framsóknarmenn verið að vinna síðan við komum í þessa ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Við höfum náð miklum árangri með Sjálfstfl. í því. Síðan kemur þar strax á eftir að standa fyrir öflugri byggðastefnu.