Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:46:41 (5240)

2002-02-26 21:46:41# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:46]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framgangi þessara mála. Hér liggur fyrir að það er bullandi ágreiningur milli þeirra tveggja aðila sem bera mesta ábyrgð á byggðamálum í landinu, hæstv. byggðamálaráðherra, sem hér hefur talað, og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, formanns stjórnar Byggðastofnunar og formanns þingflokks Framsfl.

Telja menn virkilega líklegt að þegar þeir sem eiga að stjórna og bera ábyrgð á þessum málum og ganga þar fremstir í flokki en geta ekki náð saman um hvað á að gera heldur opinbera ágreining sinn í þingsölum eftir að búið er að takast á um þetta mál milli ríkisstjórnarráðherranna og við þingflokka stjórnarflokkanna að það verði einhver sátt eftir að málið er komið inn í iðnn.? Ég sé ekki annað en að þessi mál séu öll í upplausn og það er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig framgangurinn verður síðan í framhaldinu.