Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:51:03 (5244)

2002-02-26 21:51:03# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Guð láti gott á vita. Ég ætla þá að vona að textinn sem stendur hér á síðu 3 um að í atvinnugreinum sem eru þýðingarmiklar á landsbyggðinni, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, verði ekki dregið úr nýliðun, frumkvæði og fjárfestingum í fámennum byggðarlögum þar sem fárra annarra atvinnukosta er völ, og þetta sé þá sú stefnumótun að það eigi að snúa frá því að grafa undan hinum dreifðu byggðum landsins og vinna að því í stefnumótun og fylgja því eftir að hinar dreifðu sjávarbyggðir fái að njóta strandkosta sinna, bæði til fiskveiða og fiskvinnslu, og að byggðirnar og strandveiðiflotinn fái einhvern forgang til þess að viðhalda byggðunum í landinu og tryggja að hinir stærri byggðakjarnar eigi bakland í hinum stærri byggðarlögum. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt og ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra sé að taka undir þau viðhorf sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti varðandi þetta atriði.