Málefni Landssímans

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:38:36 (5253)

2002-02-27 13:38:36# 127. lþ. 83.91 fundur 364#B málefni Landssímans# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Svör hæstv. ráðherra voru skýr. Hann hefur fullt traust á hæstv. samgrh. en vildi síðan ekki tjá sig um aðra sem ekki heyra undir hann.

Hins vegar hélt hann því fram í ræðu sinni að ég hefði í upphafi snúið út úr orðum hans. Ég mótmæli þessu harðlega. Í fyrsta lagi sagði hæstv. ráðherra í umræðu í fyrradag að ef hlutir eins og þeir sem um var rætt hefðu komið fyrir í einkareknu fyrirtæki, hæstv. ráðherra tilgreindi sérstaklega Dagblaðið, væri viðkomandi ekki starfandi þar deginum lengur. Það voru þessi orð sem ég túlkaði þegar ég sagði að hæstv. ráðherra hefði ekkert við brottvikningu starfsmanns Símans að athuga.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, hef ég útprentun úr Kastljóssþættinum þar sem viðtal var við hæstv. forsrh. Þar sagði hann, með leyfi forseta:

,,Auðvitað er ég argur og sár --- þó menn eigi ekki að láta það stjórna sér --- þegar menn sem maður batt vonir við gera svona hluti, svona skelfilega hluti og koma þessu óbragði í munn þjóðarinnar.``

Virðulegi forseti. Þessar tvær tilvitnanir í orð hæstv. forsrh. stend ég að fullu við og mótmæli því harðlega að hér hafi verið um einhverja útúrsnúninga að ræða.