Kærur vegna læknamistaka

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:43:38 (5255)

2002-02-27 13:43:38# 127. lþ. 84.1 fundur 368. mál: #A kærur vegna læknamistaka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Við undirbúning fjárlagagerðar fyrir þetta ár kom m.a. fram í erindi landlæknisembættisins til heilbr.- og trn. að landlæknir teldi nauðsynlegt að fá heimild til þess að ráða í stöðu læknis sem hefði það hlutverk að sinna afgreiðslu kærumála sem berast embættinu. Farið var fram á rúmar 6 millj. kr. til þessa verkefnis. Eftir því sem best verður séð rúmast þessi beiðni ekki innan þess fjárlagaramma sem landlæknisembættið hefur á árinu og sýnist mér að landlækni en þó fyrst og fremst aðstoðarlandlækni sé ætlað að sinna þessari vinnu ásamt öðrum veigamiklum verkefnum sem þessum tveimur einstaklingum innan landlæknisembættisins er ætlað að vinna.

Í erindi landlæknis kom fram að umfang kvartana og kæra vegna meðferðar og meintra mistaka hjá heilbrigðisstofnunum, einstökum læknum og/eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum hefur vaxið gífurlega á undanförnum árum og ekkert benti til annars en að sú þróun héldi áfram. Reynt hefur verið að fá verktaka til að sinna hluta starfsins en að mati embættisins hefur það ekki gefist nógu vel. Benda má á að heildarfjöldi þeirra kvartana og kæra sem bárust landlæknisembættinu á síðasta ári var 358, mun fleiri kvartanir og kærur en þær sem bárust til umboðsmanns Alþingis sem voru 248. Þar munar 110 málum. Auðvitað er ekki um algjörlega sambærileg mál að ræða en engu að síður má ljóst vera að hér er að stærstum hluta um að ræða flókin mál og mjög erfið úrlausnar, ekki síst faglega en einnig tilfinningalega. Það er fráleitt að ætla landlæknisembættinu að leysa þessi mál án þess að til komi fleira starfsfólk en nú er. Má jafnvel draga í efa að eitt viðbótarstöðugildi læknis dugi til ef horft er til þess hversu margar og flóknar kærurnar eru. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hver er fjöldi þeirra kærumála vegna læknamistaka sem komið hafa til kasta landlæknisembættisins árin 1990, 1995, 2000 og 2001? Ef um fjölgun er að ræða, hver er meginástæða hennar?

Hver er þróun heildarkostnaðar landlæknisembættisins vegna meðferðar þeirra kvartana og kærumála sem embættinu hafa borist, skipt niður á sömu ár?