Ákvæði laga um skottulækningar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:04:38 (5264)

2002-02-27 14:04:38# 127. lþ. 84.2 fundur 397. mál: #A ákvæði laga um skottulækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og ég gleðst yfir því að hæstv. ráðherra hefur skilning á frjálsu meðferðarvali fólks og að hann er efnislega sammála því að skipa nefnd til að skoða þessi mál.

Ég varð líka bjartsýn þegar ég sá örstutt viðtal við formann heilbr.- og trn. sem lýsti jákvæðu viðhorfi til tillögunnar eftir að gestir höfðu komið á fund nefndarinnar. Ég minni líka á það út af orðum hæstv. ráðherra að hnykkjar, sem nú eru viðurkenndir, rákust sannarlega á skottulækningavegginn þegar þeir komu hér fyrst og höfðu ekki heimild til að starfa þó að því hafi verið breytt síðar.

Herra forseti. Mig langar að segja frá því að í haust var opnað í Kaupmannahöfn svokallað ,,sundhedshus``, heilbrigðishús. Tilkoma hússins hefði ekki orðið nema fyrir tilstilli opinberra styrkja sem áður hafa eingöngu runnið til hefðbundinna læknavísinda, en nú var loks komið að stuðningi við óhefðbundnar lækningar. Við opnunina hélt fyrrverandi heilbrigðisráðherra ræðu og kveðjur bárust frá þingmönnum. Þetta er eitthvað annað en hjá okkur þó að hugmyndin sé aðeins að kvikna núna um að taka á í þessum málum.

Þetta ,,sundhedshus`` hýsir fjölmargar greinar óhefðbundinna lækninga, auk þess aðstöðu fyrir samtök þeirra og skólann ásamt rannsóknadeild. Þar er m.a. í gangi rannsóknarverkefni um beinþynningu með 100 konum um það hvort rétt matarræði geti byggt upp bein á ný. Að sjálfsögðu er allt samkvæmt vísindakröfum og sagt er að rannsóknin lofi góðu. Á næsta ári fer fram rannsókn á næringarþerapíu og sjúkdómi í öndunarfærum hjá þessu fólki,við þessa tegund meðferðar og þær niðurstöður verða birtar 2003. Það er brýnt, herra forseti, að við tökum okkur á, komum á samvinnu milli þessara hópa og að hér rísi heilbrigðishús.