Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:16:38 (5268)

2002-02-27 14:16:38# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að vekja athygli á því ófremdarástandi sem sannarlega ríkir í heilsugæslumálum á höfuðborgarsvæðinu. Á sama hátt trúi ég því vel að hæstv. ráðherra segi satt og rétt frá þegar hann lýsir yfir áhuga sínum á að efla þennan þátt heilbrigðiskerfisins. Á hinn bóginn er veruleikinn sá sem við blasir og hér hefur verið lýst að það er mikil vöntun á læknum á öllu höfuðborgarsvæðinu og eftirspurn er eftir því að ráðherra láti verkin tala. Því miður gat hann þess ekki í yfirlýsingu sinni með hvaða hætti yrði farið í aðgerðaáætlun til að fjölga heilsugæslustöðvum og læknum þannig að enn þá liggur það eilítið óljóst fyrir hvernig þessi áhugi hans muni endurspeglast í framkvæmdum á þessum vettvangi.

Ég þekki það úr heimabyggð minni, Hafnarfirði, að þar er ófremdarástand. Ég hef hvergi séð það á blaði eða heyrt því lýst yfir að neitt fast liggi fyrir um það hvenær þar verði tekið á vandanum. Ég lýsi eftir svörum ráðherra í þeim efnum.