Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:24:00 (5274)

2002-02-27 14:24:00# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svör og ég þakka þessar athyglisverðu umræður sem hér hafa farið fram.

Ég ætla að taka undir að það er góð starfsemi á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og það er vegna þess að þar starfar gott fólk en oft og tíðum við mjög erfiðar aðstæður. Það gengur ekki að svelta heilsugæsluna, gera henni ómögulegt að ráða þá lækna sem eru tilbúnir að koma og starfa eins og verið hefur og hrekja þá í dýra kosti. Menn skulu gera sér grein fyrir því að þó að verið sé að gera auknar kröfur um þjónustu utan vinnutíma er þeim kröfum sinnt annars staðar. Heilsugæslulæknar koma ekki lengur í vitjun. Við erum að tala um hefðbundna heilsugæsluþjónustu.

Þegar þúsundir eru án læknis leita menn leiða. Menn láta sér jafnvel detta í hug að opna einkastöð og selja þá þjónustu. Ég hafna alfarið að það sé kostur og hann viðunandi að fjögurra manna fjölskylda eigi að greiða 130 eða 140 þús. á ári fyrir að hafa grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ef það er rétt sem kom fram í blöðum að það kosti 2.850 á mánuði fyrir manninn... (Gripið fram í: 3.500 á fjölskyldu.) 3.500 á fjölskyldu, segir umhvrh. Þá er það sem betur fer ekki jafnhátt og ég hafði óttast --- þá eru það 50 þús. aukalega á ári. Engu að síður erum við að tala um veruleg útgjöld fyrir fjölskyldu, veruleg útgjöld í frumheilsugæslunni, og ég hafna því gjörsamlega að fara þessa leið.

Ég vil hins vegar spyrja ráðherrann varðandi þá heimild sem hann hefur til að auglýsa í Salahverfi: Hvað þýðir hún? Þýðir hún nýtt fjármagn? Hvað eru margir læknar inni í þeim 37 millj.?