Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:26:19 (5275)

2002-02-27 14:26:19# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því.

Ég vil koma nokkrum atriðum til skila í þessari seinni ræðu minni. Ég bendi í fyrsta lagi á að það er ekki alger fylgni milli fjölda þeirra sem eru skráðir án heimilislæknis og aðgengisins. Það er ekki skylda að skrá sig hjá heimilislækni. Hins vegar er fullljóst að víða á höfuðborgarsvæðinu er bið of löng, það vitum við ósköp vel. Þar liggur vandinn. En það er líka rekin öflug starfsemi á læknavaktinni sem þjónar utan hefðbundins vinnutíma.

Vegna biðarinnar skapast jarðvegur fyrir annars konar starfsemi eins og Læknalind sem opnar á morgun. Mér er sagt það. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að þessi tilraun sé gerð en hún samrýmist auðvitað ekki þeirri stefnu sem ég hef í þessum málum. Ég vil að allir hafi aðgang að þessari grunnþjónustu á vægu verði, og á sama verði. Þess vegna vil ég leggja mjög mikið kapp á að byggja upp heilsugæsluna. Þetta rekstrarform ætti að reka á eftir okkur að leggja þær áherslur. (RG: Hvað þýðir heimildin?) Hvað þýðir heimildin, spyr hv. fyrirspyrjandi. Ég hef hugsað mér að koma upp heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi á þessu ári. Ég get ekki sagt til um það enn hve löng biðin eftir henni verður. Ég vona að það gerist sem fyrst.

Ég vona að ég fái fjármuni --- ég get ekki sagt um það á þessari stundu --- til að halda svo áfram í Heima- og Vogahverfi og í Hafnarfirði í framhaldi af því. Það er takmarkið hjá mér en ég vil ekki lofa neinu í því efni á þessari stundu.