Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:41:39 (5283)

2002-02-27 14:41:39# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Sjúkraþjálfarar gegna mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu við hæfingu, endurhæfingu og forvarnir. Starf þeirra getur skipt sköpum um hvort viðkomandi er starfshæfur eða hann dæmist til örorku. Sterk hefð er fyrir sjálfstæðri starfsemi sjúkraþjálfara enda er stór hluti af þjónustu þeirra þess eðlis að ekki er þörf innlagnar á sjúkrahús. Þá er það sjálfsögð stefna að beina sjúklingum á þjónustu á lægsta þjónustustigi sem unnt er að teknu tilliti til gæða.

Umfang sjúkraþjálfunar í greiðslum almannatrygginga vegna sjúkratryggðra hefur aukist verulega á síðustu árum eða um 100% í krónum talið milli áranna 1995 og 2000 og er nálega um 700 millj. kr. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu, m.a. styttri legutími fólks á sjúkrahúsum, fækkun legudaga á endurhæfingarstofnunum, flutningur á þjónustu við fatlaða og þroskahefta frá stofnunum í sambýli, fjölgun slysa, ekki síst íþróttaslysa, aukin vitund lækna og fólks almennt um þjónustu sjúkraþjálfara og þátt þeirra í bættri líðan.

Á síðustu árum hefur færst í vöxt að sjúkraþjálfurum starfandi á sjúkrahúsum sé heimilað að stunda sjálfstæða starfsemi í aðstöðu vinnustaðarins gegn vægu eða engu aðstöðugjaldi utan eða innan vinnutíma viðkomandi. Hér er um nokkurs konar ferliverk að ræða. Stofnunin sendir síðan Tryggingastofnun reikning fyrir hönd starfsmanna samkvæmt umsaminni gjaldskrá TR og Félags sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Þessir sjúkraþjálfarar fá því hærri hlut af gjaldi í sinn vasa en sá sem starfar á stofu úti í bæ þar sem viðurkennt er að um 40% taxta vegna meðferðar standi undir rekstrarkostnaði á launatengdum gjöldum o.s.frv.

Þá hefur TR gert samninga við félagasamtök og sjálfseignarstofnanir þar sem einingarverð fyrir hverja meðferð er um 40--70% hærri en hjá þeim sem starfa á stofum úti í bæ.

Herra forseti. Augljóslega er samkeppnisstaða sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara verulega skert og er svo komið að þeir treysta sér vart lengur að starfa við fag sitt utan stofnana. Þeir hafa nú kært þessa mismunun til Samkeppnisstofnunar og vil ég segja með réttu.

Í desember sl. samþykkti hið háa Alþingi lög um breytingu á heilbrigðisþjónustulögum sem tók afdráttarlaust af skarið með að heilbrigðisþjónusta fellur undir samkeppnislög og að ekki sé gert upp á milli rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Þrengt hefur verið að sjálfstæðri starfsemi sjúkraþjálfara. Þetta er hagkvæm og góð þjónusta fyrir ríkið sem auk þess þarf ekki að leggja í stofnkostnað við uppbyggingu á aðstöðu fyrir þetta fagfólk. Stefna heilbrigðisyfirvalda er óljós varðandi þessa starfsemi. Við þær aðstæður sem nú eru uppi er veruleg hætta á að grundvelli verði kippt undan þeirri starfsemi utan sjúkrahúsa og hún verði færð inn á stofnanir ríkisins með þeim aukna tilkostnaði sem það hefur í för með sér og það að óþörfu. Því spyr ég um stefnu hæstv. heilbrrh. varðandi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Mun hæstv. heilbrrh. beita sér fyrir því að hlúð verði að þeirri góðu starfsemi sjúkraþjálfara sem fram fer utan stofnana og henni sköpuð eðlileg rekstrarskilyrði eða verður stofnanavæðingin ofan á?