Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:44:47 (5284)

2002-02-27 14:44:47# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín fyrirspurn um stefnu ráðherra varðandi starfsemi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem starfa samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Sem kunnugt er sögðu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar upp samningi sínum við Tryggingastofnun ríkisins um síðustu áramót og tekur uppsögnin gildi 1. mars. Hefur sú deila verið nokkuð í fjölmiðlum eins og kunnugt er.

Nú hefur samninganefnd sjúkraþjálfara slitið viðræðum við samninganefnd ráðuneytisins og hafa sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar ákveðið að starfa eftir eigin gjaldskrá frá 1. mars og vera utan samnings og hafa sumir þeirra tilkynnt um hækkun á taxta sínum gagnvart sjúklingum. Ég tel ekki þörf á að ræða þessa samningaumræðu frekar á þessu stigi en vil víkja að spurningunni og vil ítreka það sem ég hef áður sagt að ég tel það höfuðnauðsyn að samningar séu í gildi um starfsemi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara.

Ég hef enga stefnu í þá átt að sjúkraþjálfarar starfi eingöngu á stofnunum og ég tel starfsemi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara afar mikilvæga. Ég tel að þeir hafi innt af hendi mjög mikilvægan þátt í heilbrigðisþjónustunni. Ég tel eðlilegt að sjúkraþjálfarar utan og innan stofnana starfi á svipuðum grunni og ég vil vinna að því. Þótt alltaf geti verið um einhvern aðstöðumun að ræða jafnt innan sem utan stofnana um land allt vil ég undirstrika það að ég vil vinna að því að sá grunnur verði sambærilegur.

Herra forseti. Ég tel ekki rétt að tjá mig um efnisatriði þeirrar kjaradeilu sem stendur nú yfir milli samninganefnda af hálfu hins opinbera og sjúkraþjálfara en ég vil vona og vona einlæglega að það takist að leysa þá hnúta sem þar eru uppi og ná sátt og starfsemi þessi falli í þann farveg sem báðir aðilar geta verið sáttir við.