Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:48:54 (5286)

2002-02-27 14:48:54# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við blasir að hér mun skapast mjög alvarlegt ástand vegna þeirrar stöðu sem er í samningamálum sjúkraþjálfara og nýrrar samninganefndar heilbrrn. og Tryggingastofnunar varðandi kjör sjúkraþjálfara sem vinna sjálfstætt og er mikilvægt að sú deila leysist. Ekki er fyrirsjáanlegt að hægt sé að vísa öllum þeim sem hafa verið hjá sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum inn á heilbrigðisstofnanir, það er ekki hægt, við vitum það, þar er allt fullt fyrir.

En við þurfum að horfa til framtíðar því líklegt er að meiri þörf verði fyrir störf sjúkraþjálfara í framtíðinni, það gerir lífsstíll okkar, það gerir kyrrsetan. Börn hreyfa sig minna, fólk sem fer í aðgerðir útskrifast fyrr o.s.frv. Allt lýtur þetta að því að við munum njóta þjónustu sjúkraþjálfara meira en við gerum í dag. Við verðum að koma því svo fyrir að við metum störf þeirra og það verði sjálfsagt að nýta þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara og að kjör þeirra fylgi þá kjörum annarra sambærilegra starfsstétta.