Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:51:22 (5288)

2002-02-27 14:51:22# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Sjúkraþjálfarar inna mjög mikilvægt starf af hendi, hafa fjögurra ára háskólanám á bak við sig. Hér er búið að draga upp við hvað þeir starfa og er því óþarfi að endurtaka það. Hins vegar er nú svo komið að þeir reka 45 stofur og hafa fært rök fyrir því að rekstrarkostnaðurinn hafi aukist talsvert og launakjör rýrnað. Þeir telja sig ekki geta búið við það lengur og þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri vondu stöðu sem er í dag.

Það er rétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda að meðhöndlunin hefur aukist, það eru fleiri sem fara í gegnum þetta kerfi. Ég vil hins vegar draga fram að þetta er mjög hagkvæm meðhöndlun og það sannast best á því að 60% af þeim fjölda sem fer í gegnum sjálfstætt starfandi stofur fara í 15 skipti eða færri og 40% af þeim fara í 10 skipti eða færri. Það er því mjög hagkvæmt að reka stofurnar. Ég vil taka undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði áðan að mikilvægt er að bjóða upp á endurhæfingu bæði á stofnunum og hjá sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum og að vonandi náist samningar sem fyrst sem báðir aðilar geta sætt sig við.