Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:52:38 (5289)

2002-02-27 14:52:38# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Búið er að vera dálítið dapurlegt að fylgjast með því hve erfiðlega hefur gengið að ná samningum milli Tryggingastofnunar og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem hafa reyndar gengið frá Heródusi til Pílatusar, að mér hefur fundist að undanförnu, og m.a. rætt við fjárln. og fleiri aðila til þess að koma málum sínum á framfæri. Það virðist lítið duga.

Allar staðreyndir liggja þó á borðinu. Með vinnu sinni hafa þessir sérfræðingar náð að byggja upp alveg gríðarlega stóran hóp fólks sem leitar til þeirra en það hefur komið niður á þeirra eigin vinnulaunum. Ég ætla ekki að halda því fram að verið sé að reyna að drepa sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisgeiranum með þessu háttalagi, ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. heilbrrh. hugsi þannig. En sú hugsun leitar samt á mann að í augum margra sé ekki talin ástæða til þess að ná samkomulagi við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara vegna þess að þeir eru ekki inni í heilbrigðiskerfinu.