Tilraunaveiðar með gildrum

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:00:10 (5293)

2002-02-27 15:00:10# 127. lþ. 84.11 fundur 401. mál: #A tilraunaveiðar með gildrum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Forsaga þessa máls er sú að eigendur krókaaflamarksbáts óskuðu eftir því að fá að reyna þorskveiðar í gildrur. Hugmyndin var að leggja fjórar til sex gildrur og gæti tegund gildranna verið valin í samráði við Hafrannsóknastofnun, sem einnig fengi allar þær upplýsingar sem farið yrði fram á. Markmiðið með tilrauninni átti að vera að komast að veiðihæfni gildranna og hvort hægt væri að forðast smáfisk.

Í svari ráðuneytisins kemur stutt og laggott fram að óheimilt sé að nýta krókaaflamark á annan hátt en við línu- og handfæraveiðar og að með vísan til þess gæti ráðuneytið ekki orðið við óskum umsækjenda.

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh. hafi fengið aðstöðu til að tjá sig um afgreiðslu þessa máls. Það verður hins vegar ekki séð, ef 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er lesin, að þeir aðilar sem fengið geta leyfi til tilrauna með veiðarfæri þurfi að gera út báta með tilteknum veiðileyfum. Það er meira að segja gert ráð fyrir því í þeirri grein að um geti verið að ræða aðila sem eru ekki einu sinni með veiðileyfi í íslenskri lögsögu. Þess vegna kom svo afdráttarlaust svar nokkuð á óvart. En hér var um að ræða tilraun með gildrur til að kanna veiðihæfni og hvort forðast mætti smáfisk. Það var ekki verið að biðja um neina umbun en því heitið að samstarf yrði við Hafró eftir því sem beðið yrði um.

Miðað við það svar sem sjútvrh. gaf við fyrirspurn minni fyrr í vetur um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra er ekki að sjá að neinar rannsóknir séu í gangi með gildrur hér við land. Þær eru þó þekkt veiðarfæri sem talið er að geti haft ýmsa kosti, ekki síst vistfræðilega.

Ég hef því lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. á þskj. 658:

1. Hvaða tilraunir hafa verið gerðar á Íslandsmiðum með veiðar botnfisks í gildrur?

2. Væri 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nægjanleg lagaumgjörð um slíkar tilraunir ef þær yrðu gerðar nú?

3. Hver eru viðhorf ráðherra til slíkra tilrauna?