Tilraunaveiðar með gildrum

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:08:18 (5297)

2002-02-27 15:08:18# 127. lþ. 84.11 fundur 401. mál: #A tilraunaveiðar með gildrum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka ágæta umræðu. Varðandi spurningu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um undanþágu þá hef ég nú ekki lögin hérna við hliðina á mér til þess að vitna í þau orðrétt, en ég held ég fari efnislega rétt með að bátum sé einungis heimilt að vera með eina tegund veiðileyfis með þó þeirri undantekningu að bátar geta verið með grásleppuleyfi ásamt annarri tegund veiðileyfis. Þar af leiðandi er handfæra- og línubátum í krókaaflamarkskerfinu óheimilt að nota aðra tegund veiðarfæra. Það eru engin undanþáguákvæði frá þessu í núgildandi lögum þannig að jafnvel þótt hugur minn stæði til þess að veita slíka undanþágu þá hefði ég ekki lagaheimild til þess og efast jafnvel um á þessum grundvelli að þótt Hafrannsóknastofnunin beinlínis leigði viðkomandi bát að hún gæti notað hann til veiða með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu. Ákvæði laganna held ég að séu það afdráttarlaus að undanþága væri ekki heimil.