Hafsbotninn við Ísland

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:10:03 (5298)

2002-02-27 15:10:03# 127. lþ. 84.12 fundur 436. mál: #A hafsbotninn við Ísland# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Nýlega lagði ég fram fyrirspurn til umhvrh. um náttúruminjar á hafsbotni, svo sem kórallasvæði, og hvort friða þyrfti fleiri svæði við Ísland en hluta af hafsbotni Eyjafjarðar.

Vitað er að á síðustu 50 árum hefur maðurinn valdið miklum spjöllum sem stefnt hafa í hættu lífinu í sjónum og skaðað hafið. Má nefna ofveiði, mengun frá landi og breytingar á skipulagi þar sem strandlengjum hefur verið breytt í byggð eða iðnaðarsvæði. Margt af þessu er talið hafa breytt lífsskilyrðum í sjónum. Víða um heim eru stjórnvöld að átta sig á þessu og grípa til ráðstafana til þess að draga úr spjöllum af mannavöldum. Svo er einnig hér á landi og er það vel. Um slíkar aðgerðir hljóta menn að sameinast.

Í fréttum hér á landi síðasta haust kom fram að Rannsóknasetrið í Eyjum hefur í félagi við Líffræðistofnun Háskóla Íslands fest kaup á svonefndum dvergkafbát sem farið getur niður á 2 km dýpi. Í viðtali við forstöðumann Rannsóknasetursins í Eyjum í Fréttablaðinu 1. október sl. segir hann að þeir reyni að gefa sér ekki niðurstöður fyrir fram en hafi sérstakan áhuga á að skoða ástand kóralrifjanna úti fyrir landi, vitandi að þau eru einkar mikilvægur hlekkur í öllu vistkerfi sjávar.

Gert hefur verið opinbert myndband með myndum af gömlum djúpsjávarkóröllum sem vaxa undan strönd Nova Scotia í Kanada. Vísindamenn vilja að þessir kórallar verði friðaðir sem uppeldisstöðvar fyrir fisk en einnig vegna þess að þeir geymi í sér verðmætar upplýsingar um veðurfarsbreytingar. Leiðangur sem tók myndirnar fór um svæði sem liggur á milli Browns Bank og Georges Bank og vísindamennirnir vilja að sundið þar á milli, Norðaustursund, verði friðlýst svæði.

Ég legg því eftirfarandi fyrirspurn fyrir sjútvrh.:

1. Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á ástandi hafsbotnsins umhverfis landið?

2. Hafa verið unnin umhverfisspjöll á hafsbotni? Er vitað hvaða skemmdir hafa orðið á hafsbotni af völdum veiðarfæra?

3. Hvaða áhrif geta skemmdir á hafsbotni haft á klak og uppvaxtarskilyrði lífvera í sjónum?