Hafsbotninn við Ísland

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:16:59 (5300)

2002-02-27 15:16:59# 127. lþ. 84.12 fundur 436. mál: #A hafsbotninn við Ísland# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Ég þekki sögur af því frá gömlum togarasjómönnum sem stunduðu veiðar á Halamiðum að þegar veiðar hófust á þessum stað þá fylltist trollið af osti og alls konar gróðri samfara því að það var góð veiðislóð. Í dag kemur ekki einn einasti ostur í troll á þessum stöðum og botninn er eins og hefluð fjöl. Þetta er ekki hægt að rannsaka eftir á. Þetta eru bara sögur. Þetta er bara sagnfræði. Það er engin spurning um að trollið hefur haft gríðarleg áhrif á lífríki og aðstæður á sjávarbotni.

Þessar sögur heyrir maður einnig frá Reykjaneshrygg þar sem stórir og þungir hlerar hafa verið notaðir til þess að slétta út hraunin svo hægt væri að draga þar eftir trollin. Sama er með Jökuldýpi. Það er engin spurning að stórkostlegar breytingar hafa orðið á sjávarbotni. Ég tek undir nauðsyn þess að láta rannsaka þetta. Það er mjög brýnt og ég fagna því að hæstv. sjútvrh. hefur áhuga á því.