Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:21:10 (5303)

2002-02-27 15:21:10# 127. lþ. 84.13 fundur 486. mál: #A útræðisréttur strandjarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Beinn eignarréttur eigenda sjávarjarða til fiskveiða í netlögum nær 115 metra frá stórstraumsfjörumáli. Þessi eignarréttur féll ekki niður við setningu laga um fiskveiðistjórn og eignarréttur fyrnist ekki. Hann verður ekki af eigendum tekinn nema fram fari lögmætt eignarnám og það hefur ekki farið fram.

Fyrir liðin ár eiga eigendur sjávarjarða bótakröfur fyrir það tjón sem þeir kunna að hafa orðið fyrir, en skaðabótakröfur fyrnast á tíu árum. Í hugtakinu útræði eða útræðisréttur sjávarjarða felst í fyrsta lagi einkaréttur landeigenda til að veiða í netlögum og síðan í öðru lagi sérstakur réttur til að veiða í friðhelgi og á hefðbundnum nálægum miðum utan netlaga. Útræði eða útræðisréttur hefur verið metinn til eignar í fasteignamati 1.090 sjávarjarða í landinu. Útræðisrétturinn hefur verið metinn til verðs í fasteignamati og þar með verið skattstofn, er í senn eignarréttarlegs eðlis og atvinnuréttarlegs eðlis og því varinn bæði af 72. og 75. gr. stjórnarskrár.

Um fyrningu þessa veiðiréttar að því er varðar fiskihelgi utan netlaga og hefðbundin mið er það sama að segja og um fyrningu veiðiréttar í netlögum, svo og um fyrningu bótakrafna. Ég hef því talið eðlilegt, virðulegi forseti, að beina spurningu til hæstv. sjútvrh. um útræðisrétt strandjarða:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að fundin verði leið til þess að tryggja að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný og að sá réttur verði endurskilgreindur og staðfestur í nýjum lögum um stjórn fiskveiða?``