Meðferð við vímuvanda fanga

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:51:35 (5317)

2002-02-27 15:51:35# 127. lþ. 84.17 fundur 434. mál: #A meðferð við vímuvanda fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Nýlega fór hv. allshn. Alþingis í heimsókn að Litla-Hrauni til að kynna sér aðstæður. Heimsóknin var afar fróðleg. Nefndarmönnum varð ljóst að almennt er staðið vel að aðbúnaði fanga og starfsmenn eru vel menntaðir, áhugasamir og valda vel verki sínu.

Heilbrigðisþjónustu við fanga er sinnt af Heilbrigðisstofnun Suðurlands auk þess sem geðlæknir frá Sogni er í hlutastarfi í fangelsinu. Allir fangar fara í læknisskoðun og verður læknisþjónusta á Hrauninu að teljast mjög góð, svo og þjónusta hjúkrunarfræðinga. Frá árinu 1996 hefur sálfræðingur verið þar í fullu starfi og samningur við Sogn er frá 1998. Fyrirspurn mín beinist að því hvernig meðferð við áfengis- og vímuvanda fanga er háttað.

Ég hef kynnt mér hvernig staðið er að slíkri meðferð á hinum Norðurlöndunum ásamt Kanada, Bretlandi og Írlandi og veit að mikið samstarf hefur verið milli íslenskra fangelsisyfirvalda og nágrannaþjóðanna. Módel Kanadamanna hefur verið talið áhugavert, t.d. er stuðst við það í Finnlandi, en það snýst m.a. um að þeir sem dæmdir eru til lengri tíma en tveggja ára fara fyrst á sérstaka deild þar sem margir þættir eru metnir, þar á meðal hvort meðferð við vímuefna- eða áfengismisnotkun sé við hæfi og hvenær henni skuli beitt. Þetta er nýlega farð af stað og sama prógramm er farið af stað í þremur fangelsum í Noregi.

Talið er að jafnvel 3/4 þeirra sem fremja brot séu undir áhrifum en inni í þessari tölu sem er reyndar ekki glæný eru einnig þeir sem frömdu umferðarlagabrot. Nýjar aðferðir hafa verið teknar upp við ölvunarakstursbrotum, svo sem meðferð og samfélagsþjónusta, þannig að þeim sem þurfa að afplána fangelsisvist eftir slík brot hér á landi hefur verulega fækkað. En ég beini eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.:

1. Hve stór hluti fanga sem afplána dóm á Litla-Hrauni er talinn háður áfengi eða ólöglegum vímuefnum?

2. Hve stór hluti fanga fær meðferð við vímuvanda sínum fyrir lok afplánunar?

3. Hvað kostar slík meðferð og hver ber kostnaðinn af henni? Þá vísa ég til annaðhvort fangelsisyfirvalda eða heilbrigðisþjónustunnar.

4. Kemur til greina að bjóða upp á slíka meðferð í upphafi fangelsisvistar, a.m.k. fyrr en nú er, í stað þess að bíða þar til henni er að ljúka?