Meðferð við vímuvanda fanga

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:06:04 (5323)

2002-02-27 16:06:04# 127. lþ. 84.17 fundur 434. mál: #A meðferð við vímuvanda fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessum þætti í fangelsismálum og hv. þingmönnum fyrir ábendingar þeirra við þessa umræðu.

Það er óneitanlega áhyggjuefni hve vímuefni koma oft við sögu í alvarlegum afbrotum. Meðferð getur því í mjög mörgum tilfellum verið lykilatriði svo brotamaður geti breytt um lífsstíl og komið sér á réttan kjöl að afplánun lokinni. Þetta skiptir því verulegu máli fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og þjóðfélagið allt.

Ég tel rétt að skoðaðar verði nýjar áherslur í fangelsismálum og hef lagt drög að því að endurskoðuð verði núgildandi löggjöf um fangelsi og fangavist. Ég bind líka vonir við að nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi sem til stendur að reisa á höfuðborgarsvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir bæði móttöku og greiningu, geti orðið til mikilla bóta í þessu sambandi.