Skipan matvælaeftirlits

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:15:42 (5328)

2002-02-27 16:15:42# 127. lþ. 84.19 fundur 514. mál: #A skipan matvælaeftirlits# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að á meðan á þessu nefndarstarfi stóð var þeirri ósk ítrekað komið til a.m.k. formanns nefndarinnar að haft yrði samband við bæði þá sem starfa að eftirliti á vettvangi á vegum sveitarfélaganna og eins samtök sveitarstjórnarmanna. En það er ekki að sjá á skýrslunni að slíkt samráð hafi verið haft. Það kemur m.a. fram í skýrslunni þar sem fjallað er um þetta ,,samstarf`` við sveitarfélögin en þar segir, með leyfi forseta: ,,Formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa verið kynntar helstu niðurstöður nefndarinnar.`` Að ekki skuli hafa verið haft samstarf við eftirlitsnefndir sveitarfélaganna, heilbrigðiseftirlitið hjá sveitarfélögunum, gerir það að verkum að það eru ýmsar rangfærslur í skýrslunni sem nauðsynlegt er að taka á.

Að mínu viti er eðlilegra að sveitarfélögin bæti frekar á sig verkefnum en að matvælaeftirlitið, sá þáttur sem þau sinna, verði tekið frá þeim vegna þess að það dregur í raun og veru úr þeim allan mátt. Og samt verður áfram um tvíverknað að ræða því önnur verkefni eru skilin eftir hjá sveitarfélögunum sem þau munu ekki geta sinnt jafnötullega og þau gera núna. Það verður dýrara, óþjálla og um skörun á eftirliti verður að ræða.

Ég held að miðað við þær óskir sem fram hafa komið og í viðræðum okkar, þingmanna Sunnlendinga, við sveitarstjórnarmenn sé fullur hugur hjá þeim að fara fram á að þessi niðurstaða, þessi skýrsla, verði endurskoðuð og þá tekið meira tillit til þess verkefnis sem er hjá sveitarstjórnunum, og að sveitarstjórnirnar vilji frekar fá til sín aukin verkefni á þessu sviði en að stjórnsýsluþátturinn verði samræmdur í eina stofnun.

Fyrirspurnir hér í dag og reyndar fyrirspurn um merkingar matvæla í síðasta fyrirspurnatíma á hv. Alþingi sýna bara hvað þetta er flókið í framkvæmd eins og það er.