Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:19:25 (5332)

2002-02-28 11:19:25# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir að það er mikið fagnaðarefni þegar fram koma tillögur í þessu stóra og viðkvæma máli þegar einhver von er til að koma hreyfingu á málin. Við höfum lýst skoðunum okkar í þessu máli. Þær hafa verið mjög skýrar. Ég hef tjáð mig um það að ég telji þessar tillögur með þeim hætti að Ísraelsmenn hljóti að taka í útrétta sáttarhönd Arabaríkjanna. Íslendingar munu beita sér, innan þeirra alþjóðastofnana sem þeir starfa að, fyrir því að haldið verði áfram að þrýsta á málin.

Hingað til lands kemur sendiherra Ísraels hér á landi í byrjun marsmánaðar og mun eiga viðræður við okkur um ástandið í Ísrael. Það liggja líka fyrir heimboð til utanrrh., bæði til Ísraels og Palestínu. Verið er að kanna hvenær það geti orðið að veruleika. Það stóð til að það yrði í september sl. en gat ekki orðið af því vegna ýmissa ástæðna. Það er hins vegar í áframhaldandi athugun og við munum leggjast á sveif með öðrum Norðurlöndum með að þrýsta á að samningar hefjist á nýjan leik eins og svo mörg önnur ríki Evrópu. Með þeim hætti getum við Íslendingar best lagt okkar af mörkum til þess að skriður komist á málin.

Hins vegar er ljóst að þeir sem þarna skipta mestu máli eru að sjálfsögðu Arabaríkin og Bandaríkjamenn og ekki má gleyma Evrópusambandinu. Það eru þessir sterku aðilar sem koma til með að skipta meginmáli varðandi framhaldið fyrir utan, að sjálfsögðu, Ísraelsmenn sjálfa og Palestínumenn. Yasser Arafat, sem réttkjörinn leiðtogi Palestínumanna, verður að sjálfsögðu að standa við skuldbindingar sínar eins og aðrir.