Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:23:58 (5334)

2002-02-28 11:23:58# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vil ég taka undir hvatningu til ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanrrh. um að beita sér í þágu friðar í Miðausturlöndum. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, að horft er til hinna sterku aðila, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og fleiri ríkja. Hins vegar er mikilvægt að við tölum skýrt og höfum sterka siðferðilega rödd í þessum efnum.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ályktaði um Palestínu á sunnudaginn. Þar beindum við enn á ný til ríkisstjórnar Íslands að koma á framfæri mótmælum vegna ofbeldisverka gegn varnarlausu fólki. Með leyfi forseta, segir orðrétt í ályktun VG:

,,Harðnandi átök fyrir botni Miðjarðarhafsins hafa leitt til víxlverkandi ofbeldis sem bitnar á saklausum borgurum á svæðum Palestínumanna og einnig í Ísrael. Við slíkar aðstæður ber alþjóðasamfélaginu að beita sér í þágu friðar. Íslandi er skylt að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna, enda er það í samræmi við ályktun Alþingis um málefni Palestínu frá 1988. Þar til sjálfstætt ríki Palestínumanna er orðið að veruleika ber að tryggja palestínsku þjóðinni alþjóðlega vernd.``