Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:27:00 (5336)

2002-02-28 11:27:00# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Það er mjög margt sem bendir til þess, herra forseti, að hér á hinu háa Alþingi sé þverpólitísk samstaða um stuðning við sjálfstæði Palestínu og friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs.

Það sem er nýtt í stöðunni og mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu er að nú virðast Arabaríkin ætla að reyna að sameinast um tillögur sem gætu leitt til friðar í Austurlöndum nær. Enn mikilvægara er því að ríkisstjórn Íslands tali enn skýrar en hún hefur þegar gert. Hún hefur talað skýrt, því skal einnig haldið til haga, en þarf að beita sér gagnvart vinaþjóðum og bandalagsþjóðum. Við þurfum að beita okkur í þessu máli ásamt Evrópusambandinu og Bandaríkjastjórn. Það liggur fyrir, herra forseti, að hæstv. utanrrh. þarf að fara þess sérstaklega á leit við stjórnvöld, bæði í Bandaríkjunum og við yfirmenn Evrópusambandsins, að þessir aðilar beiti sér fyrir því að tillögur Arabaríkjanna verði ræddar af fullri alvöru á alþjóðlegum vettvangi. Þannig getum við lagt okkar litla lóð á vogarskálarnar og stuðlað að friði í Ísrael.