Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:39:00 (5342)

2002-02-28 11:39:00# 127. lþ. 85.1 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:39]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur hér í umboði samgrh. flutt mál sem ég held að ekki þurfi að eyða miklum tíma í að ræða. Mér sýnist þetta sjálfsagt mál og eiga að fá hálfgerða hraðferð í gegnum hv. samgn. sem ég sit í ásamt öðrum.

Hér á að festa í lög, réttara sagt verið að þrengja það svigrúm sem hefur verið í lögum um það að veita skipverjum sem sækja um lögskráningu á skip undanþágu frá að sækja öryggisfræðslunámskeið. Ég held að það sé af hinu góða.

Það kemur fram í athugasemdum með frv. að menn hafi nýtt þessa fersti mjög mikið og fram kemur að nokkur námskeið hafi fallið niður vegna þess að sjómenn hafi ekki sótt þau námskeið. Það kemur fram að ekki hafi tekist að fylla hátt í 200 námskeiðspláss frá ársbyrjun 2000 til loka mars 2001. Ég held að það segi allt sem segja þarf um þetta en hér er sem sagt þrengt að þessu, þ.e. að þeir sem sækja um lögskráningu en hafa ekki farið í Slysavarnaskóla sjómanna fái ekki lögskráningu nema þeir hafi fast námskeiðspláss.

Sá frestur sem hefur verið í lögunum hefur gert það að verkum að námskeið hafa verið illa sótt en núna þegar lögskráningarmenn eru farnir að ganga eftir þessu hlaðast biðlistar upp í Slysavarnaskóla sjómanna. Nú er því svo komið að verið er að skrá nemendur á námskeiði í desember eins og kemur fram í athugasemdum. Einnig er verið að jafna mun á milli þeirra sem eru að hefja sjómennsku eða koma aftur til þeirra starfa og hinna sem eru á sjó í dag.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan held ég að ekki þurfi að ræða þetta frv. mjög mikið. Hins vegar blandast óneitanlega inn í þetta mál, vegna þess að við höfum auðvitað heyrt af sjómönnum sem hafa lent í skipsskaða, að við höfum heyrt sjómenn lýsa því hvernig Slysavarnaskóli sjómanna og sá lærdómur sem þeir fengu í þeim skóla hafi bjargað lífi þeirra. Það hefur sannarlega komið oft fram að í slysavarnaskólanum læra menn mjög mikið, t.d. um þyrlubjörgun, eldvarnir, flotbúninga o.s.frv.

Í velflestum tilfellum er það sennilega útgerðin sem hefur borgað þessi námskeið sem taka 5--6 daga. Mér er ekki kunnugt um hve hátt gjaldið er en vonandi munu Slysavarnaskóli sjómanna og gamla Akraborgin fara um landið og halda námskeiðin á viðkomandi svæðum. Þannig verður sjómönnum gert kleift að halda sig í sinni heimabyggð eða í námunda við heimabyggð sína meðan þeir sækja námskeiðið.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan blandast ýmis fleiri mál inn í þetta, t.d. þeir skipskaðar sem hafa orðið að undanförnu. Umræða um tilkynningarskyldu hefur einnig farið hátt að undanförnu en ég ætla ekki að fjalla um þau atriði hér.

Án þess að hafa verið búinn að skoða þetta mál mjög vel held ég, með smáfyrirvara, að hv. samgn. eigi ekki að þurfa að taka langan tíma í það.