Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:43:05 (5343)

2002-02-28 11:43:05# 127. lþ. 85.1 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, GHall
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:43]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er þarft mál á ferðinni. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, að það ætti ekki að taka langan tíma hjá hv. samgn. að afgreiða þetta mál. Ég átti því láni að fagna í jólahléi Alþingis að fara á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna.

Þannig háttaði til að þar voru skráðir 16 aðilar. Ég hafði orð á því við skólastjóra Slysavarnaskólans að ég væri þá ekki að taka pláss frá öðrum. Talað var um að ég yrði þá yfirskips ef svo bæri undir en það gerðist að af þeim 16 sem þá voru búnir að bóka sig á námskeiðið mættu aðeins 14. Það sýnir í hversu miklum vanda menn hafa verið. Í þessu máli var ekki fastar tekið á málum en raun bar vitni og þess vegna gerðist þetta æ ofan í æ eins og hér hefur komið fram og kemur fram í greinargerðinni að sjómenn voru eitthvað að lufsast við að mæta á þessi námskeið af því að þeir áttu undanskotsleið. En nú hefur þetta verið fest svo í sessi að nánast hvert rými er upptekið fram í desember.

Þess vegna er eðlilegt að tekið sé á þessu og enn fremur, eins og hér kemur fram, áttu þeir nýliðar sem voru að stíga í fyrsta skipti á skipsfjöl möguleika á undanþágu frá því að fara í skólann. Þeir sem hins vegar höfðu verið til sjós í áraraðir áður en höfðu verið í landi ákveðinn tíma áttu ekki möguleika á slíkum fresti sem nýliðarnir. Hér er það leiðrétt og lagað.

Ég vildi aðeins taka fram, í framhaldi af því sem hv. þm. Kristján Möller kom inn á varðandi þau sjóslys sem mikið hafa verið í umræðunni, að ég mun sem formaður samgn. beita mér fyrir því að á næsta fund hv. samgn. verði kallaðir til okkar þeir aðilar sem hafa fjallað um og sýslað með sjálfvirka tilkynningarskyldu og jafnframt þeir sem eru í hvers konar þjónustu við eða móttöku hjá neyðarlínu, loftskeytastöðvum o.s.frv. Ég held að það sé full ástæða til að hv. samgn. kanni af eigin rammleik hvernig á þessu máli er haldið. Ég held að það sé ekki eðlilegt, varðandi þessa sjálfvirku tilkynningarskyldu, að menn séu farnir að hugsa um að leita einhverra annarra leiða í sjálfvirkum tilkynningarskyldubúnaði heldur en þess sem lögfestur hefur verið. Það er full ástæða til að þetta mál verði skoðað í heild sinni og það munum við gera í hv. samgn.