Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:55:51 (5346)

2002-02-28 11:55:51# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Vísinda- og tækniráð sem er eitt þriggja lagafrumvarpa sem ríkisstjórnin flytur um nýskipan mála á sviði vísinda, rannsókna og tækniþróunar. Auk þessa frv. er um að ræða frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem hæstv. menntmrh. flytur og frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sem hæstv. iðnrh. flytur en mál þessi verða rædd saman eins og kom fram í ákvörðun hæstv. forseta.

Í samræmi við ákvæði í lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994, hefur endurskoðun þeirra staðið yfir að undanförnu í samráði við ýmsa þá sem gerst þekkja til starfsemi þess og þeirra breytinga sem orðið hafa á rannsóknarumhverfinu á síðustu árum. Niðurstaða þessarar endurskoðunar liggur nú fyrir og felur í sér tillögur um að verulegar breytingar verði gerðar á stjórnskipulagi Rannsóknarráðs og tengdrar starfsemi. Ábyrgð á málum rannsókna og þróunar í þágu atvinnulífsins hefur um langt skeið hvílt á herðum einstakra fagráðuneyta að mestu án heildarsamræmingar þar á milli. Rannsóknarráði Íslands var þó falið að gegna ákveðnu samræmingarhlutverki á sínu sviði eftir að Rannsóknaráð ríkisins og vísindaráð voru sameinuð í því árið 1994 og hefur í því skyni annast ýmis alþjóðatengsl, safnað upplýsingum um framlög til rannsókna og lagt áherslu á samstarf opinberra rannsóknastofnana, háskóla og atvinnulífs.

Með hliðsjón af þeirri reynslu, alþjóðlegri þróun og vaxandi mikilvægi þessa málaflokks þykir nú tímabært að færa samræmda umfjöllun um málefni vísinda og tækni á efri stig stjórnsýslunar. Ljóst er að framlög atvinnulífsins til rannsókna fara ört vaxandi og jafnframt eykst metnaður vísindasamfélagsins í réttu hlutfalli við góðan árangur þess. Þótt framlög ríkisins til mennta- og vísindamála hafi lengst af verið hlutfallslega mikil miðað við framlög atvinnuveganna má nú búast við að kröfur til stjórnvalda um aukin framlög til vísinda og tækni og til stuðnings við nýsköpun aukist á næstu árum. Því verður æ mikilvægara að ákvarðanir séu teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnu sem mörkuð er af stjórnvöldum. Taka þarf mið af þörfum sem varða starfssvið margra ráðuneyta því vísindaframfarir og ný þekking nýtist þvert á þá skipan. Ljóst er að skipan opinberra rannsóknastofnana þarfnast endurskoðunar og örar breytingar eru að verða á verkaskiptingu milli opinberra aðila og einkageirans á sviði rannsókna og þróunar um þessar mundir. Þá breytast viðhorf á sviði vísinda og tækni sem og atvinnulífsins mjög hratt og mikilvægt að stjórnvöld séu vel upplýst og í aðstöðu til að bregðast við með breyttum áherslum.

Aukin samkeppni, breyttar aðstæður og ytri skilyrði gera kröfu til þess að fjármunir sem varið er til vísindarannsókna og tækniþróunar séu nýttir á markvissari hátt en áður og dugi til að ryðja nýrri þekkingu braut. Með markvissri stefnumótun, aukinni samvinnu og samhæfingu rannsóknastofnana og skýrri verkaskiptingu þeirra er hægt að nýta betur opinbert fjármagn sem rennur til rannsókna og þróunar og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Jafnfram er mikilvægt að stefna í vísindum, rannsóknum og þróun setji ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, enda getur verið erfitt fyrir Ísland að halda stöðu sinni í fremstu röð þjóða nema málaflokkurinn fái þann sess sem honum ber í stefnumótun stjórnvalda hverju sinni.

Í samræmi við þessi markmið fela tillögur ríkisstjórnarinnar það í sér að stefnumótun á sviði vísinda, rannsókna- og tækniþróunar verði í höndum sérstaks Vísinda- og tækniráðs. Til að tryggja starfsemi þess, þá pólitísku athygli sem viðfangsefnið verðskuldar, er lagt til að fjórir ráðherrar eigi þar föst sæti en auk þeirra verði ráðið skipað 14 fulltrúum tilnefndum af stjórnvöldum, samtökum í atvinnulífinu og vísindasamfélaginu. Gert er ráð fyrir að þessir fulltrúar skipti síðan með sér verkum á þann hátt að helmingur þeirra taki sæti í vísindanefnd og annar helmingur í tækninefnd sem undirbúi stefnumótun og starfsemi ráðsins. Er sú verkaskipting jafnframt í samræmi við þá tilhögun sem frv. tvö gera ráð fyrir, frv. tvö sem hæstv. ráðherrar munu kynna hér á eftir, en hún felst í meginatriðum í því að undir menntmrn. heyri opinber stuðningur við vísindarannsóknir, en undir iðnrn. opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífinu.

Í því skyni gerir frv. menntmrh. ráð fyrir að á hans vegum verði starfræktur Rannsóknasjóður sem ætlað er að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir en frv. iðnrh. að starfræktur verði Tækniþróunarsjóður til að styrkja tækniþróun og nýsköpun. Hvorum sjóðnum um sig er aftur ætlað að starfa í samræmi við þá stefnu sem mótuð verður af Vísinda- og tækniráði sem jafnframt er ætlað að tryggja nauðsynlega samhæfingu í starfi sjóðanna.

Mun ég þá, herra forseti, víkja stuttlega að einstökum greinum frv. eftir því sem þörf er á en vísa að öðru leyti til athugasemda sem með frv. fylgja.

Í 1. gr. frv. er mælt fyrir um þau markmið sem stefnumótun Vísinda- og tækniráðs skv. 2. gr. og undirbúningur hennar í vísindanefnd og tækninefnd hlýtur að taka mið af. Stefnumótun á þessu sviði varðar starfsemi opinberra rannsóknastofnana og opinberra úthlutunarsjóða, áherslur á sviði vísinda og tækni, þar með talið vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun. Þannig er gert ráð fyrir að umfjöllun ráðsins taki til almennrar þróunar á sviði vísinda og tækni og samhæfingar opinberra stofnana á sviði vísindarannsókna, aðgerða sem miða að þróun tækni og aukinnar nýtingar hennar og skiptingar fjármuna ríkisins til vísinda- og tæknimála. Í 3. gr. er mælt fyrir um skipan Vísinda- og tækniráðs og í 4. gr. um skipan vísindanefndar og tækninefndar. Loks er í 5. gr. gert ráð fyrir að viðeigandi ráðherrum verði heimilað að mæla nánar fyrir um starfsemi ráðsins og nefndanna með reglugerðum, enda er frv. sjálft fáyrt um starfshætti þeirra.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. að svo stöddu, herra forseti, enda er það einfalt í eðli sínu en vænti þess að menntmrh. og iðnrh. geri ítarlega grein fyrir öðrum breytingum hvor á sínu sviði.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.