Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:02:43 (5347)

2002-02-28 12:02:43# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ástæða fyrir þeirri skipan vísinda og rannsókna sem hér hefur verið mælt fyrir og felur í sér m.a. aukna aðkomu ráðherra og stjórnmálamanna er ekki síst rakin til þess í greinargerðum þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir að hefðbundin skil milli atvinnugreina séu að hverfa með tilkomu nýrrar þekkingar og nýrra atvinnugreina sem byggja á þeirri þekkingu.

Vísindamenn og ýmsir fleiri hafa líka bent á að stofnanakerfi atvinnulífsins þarfnist endurskoðunar vegna þess að skipulag eftir hefðbundnum atvinnuvegasviðum og skipting í ráðuneyti sé ekki sérstaklega hagkvæm lengur. Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. forsrh. sem er með fyrirsvar í þessum málum hvort fyrirhugað sé að endurskoða skipulag Stjórnarráðsins á sömu forsendum og hér er verið að huga að skipulagningu vísinda- og rannsóknasamfélagsins. Mér sýnist að sömu rök eigi við og ég veit að hæstv. forsrh. þekkir þá umræðu sem aftur og aftur fer hér fram um það hvað t.d. þau mál sem koma til atvinnuveganefnda þingsins og þá væntanlega atvinnuvegaráðuneytanna einnig hafa orðið á mörgum sviðum mikla skörun, ekki síst þegar um nýjar atvinnugreinar er að ræða. En spurningin er sem sagt þessi: Er verið að endurskoða skipulag Stjórnarráðsins með sambærilegum rökum og menn eru hér að fara í breytingar á vísinda- og rannsóknarsamfélaginu?