Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:18:45 (5352)

2002-02-28 12:18:45# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir. Varðandi erlenda námsmenn hér á landi þá lít ég þannig á að þeir standi að sjálfsögðu jafnfætis íslenskum námsmönnum. Við erum í alþjóðlegri samkeppni. Við erum í alþjóðlegu umhverfi og okkur ber skylda til þess að mismuna ekki námsmönnum eftir uppruna ef þannig má að orði komast, eða þjóðerni. Það er akkur fyrir íslenska vísindastarfsemi að fá hingað frábæra og góða erlenda vísindamenn eins og við sjáum t.d. hjá fyrirtæki eins og Íslenskri erfðagreiningu. Okkur vantar fleiri starfsmenn í raunvísindagreinum og verðum þess vegna að skapa það umhverfi að við löðum hingað líka menn í doktors- og framhaldsnám á þessum sviðum. Það erum við að gera og út frá því göngum við í að styrkja líka það umhverfi á þann hátt sem lagt er til hér.

Varðandi grunnrannsóknirnar þá er í frv. eins og þessum hæpið að forgangsraða með almennum hætti og fara inn á forgangsmarkmið í sambandi við einstaka rannsóknarþætti. Það hefur verið nefnt í umræðunni um þetta hvort unnt væri að gera það. Ég tel að svo sé ekki. Hv. þm. getur kynnt sér allar vangaveltur um gildi rannsókna og grunnrannsókna og muninn á grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum og eins og hann veit sjálfur sem vísindamaður er oft mjög erfitt að draga þarna skil á milli. En ég tel að frumvörpin og áherslurnar í þeim séu þess eðlis að það eigi að verða til þess að efla stuðning við grunnrannsóknir umfram hagnýtar rannsóknir, að mínu mati, þegar litið er til þessara mála.

Varðandi fjármagnið þá er rétt að við erum ekkiað flytja fjárlög. Við erum að flytja frumvörp um önnur málefni en fjárhagsleg málefni. En ég tel, og rökstuðningurinn fyrir þessu er sá, að með því að setja frumvörpin fram með þessum hætti og breyta skipulaginu þá séu líkur á því að aukið fé fáist frá opinberum aðilum og einkaaðilum.

Varðandi uppstokkun á rannsóknastofnunum þá tek ég undir með hv. þm. að nauðsynlegt er að huga að því ekki síður en þessum þáttum.