Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:23:09 (5354)

2002-02-28 12:23:09# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta það sem ég sagði í lok máls míns um rannsóknastofnanirnar og hv. þm. nefndi sérstaklega. Ég tel nauðsynlegt að huga að þessu og það er liður í þeim skipulagsbreytingum sem við erum að leggja til hér til að auðvelda það verk sem hv. þm. nefndi.

Ég tel einnig varðandi þá nýskipan sem verið er að taka upp t.d. í Háskóla Íslands um samstarf við einkaaðila um uppbyggingu á þekkingarþorpi og vísindagörðum, að þar sé líka með dramatískum hætti, ef þannig má að orði komast, verið að skapa ný skilyrði fyrir vísindastofnanir til þess að starfa saman við nýjar og spennandi aðstæður. Ég held að það sé nauðsynlegt og ég hef lagt mikla áherslu á að það sé skylda ríkisvaldsins að standa vel að grunnrannsóknum og menntun ungra vísindamanna. Rannsóknastofnanir sem eru ekki þátttakendur í því að efla grunnrannsóknir og taka þátt í að mennta unga vísindamenn munu hverfa og gufa upp þegar fram líða stundir. Því er mjög nauðsynlegt að mínu mati að efla tengslin á milli háskólanna og rannsóknastofnananna og gjörbreyta þessu umhverfi líka. Ég tel að með nýjum háskólalögum og nýjum samningum við Háskóla Íslands um rannsóknir innan vébanda háskólanna sé verið að ýta undir þessa þróun og að við séum markvisst að stefna að því að skilin á milli vísindasamfélagsins og háskólasamfélagsins falli betur saman og þar með líka að stofnanaumhverfið breytist.