Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:30:40 (5359)

2002-02-28 12:30:40# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem er 553. mál þingsins á þskj. 868.

Frv. þetta er hluti af þeirri nýskipan vísinda- og tækniþróunar sem grunnur er lagður að í frv. til laga um Vísinda- og tækniráð sem forsrh. hefur mælt fyrir. Í því frv. er gert ráð fyrir að til verði nýtt ráð, Vísinda- og tækniráð, sem starfi undir yfirstjórn forsrh. og fari með heildarstefnumótun um málefni er tengjast vísindarannsóknum og tækniþróun. Ávinningur þess er einkum sá að vægi málaflokksins vex og að stefnumótunin og framkvæmd hennar verður markvissari en áður.

Eitt helsta inntak þessarar nýskipunar er að stefna í vísindarannsóknum og tækniþróun verði tengd stefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma í efnahags- og atvinnumálum. Þetta mun geta leitt til þess að ný fræðasvið með sterka atvinnutengda tilvísun nái að gefa af sér efnahagslegan ávinning fyrir þjóðina fyrr en ella hefði verið. Vísinda- og tækniráðinu er ætlað að fjalla bæði um vísindarannsóknir og nýsköpunarmálefni. Vísindarannsóknir heyri undir menntmrh. samanber frv. það sem hann hefur mælt fyrir um opinberan stuðning við vísindarannsóknir en nýsköpun og tækniþróun í þágu efnahagslegra framfara fari undir iðnrh. samanber frv. þetta.

Frv. hefur að markmiði að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Því markmiði verður best náð með því að byggja upp tæknilega getu fyrirtækja og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun sem leitt geti til nýsköpunar atvinnulífsins. Frv. fjallar um þær aðgerðir sem beita þarf til þess að vísindaleg þekking geti orðið að söluhæfum afurðum vöru og þjónustu og þannig skilað fjárfestingum í vísindarannsóknum út í atvinnulífið. Farvegur þessara aðgerða er annars vegar nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hins vegar tækniþróunarsjóður.

Kveðið er á um nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í 3. og 4. gr. frv. Henni er ætlað að verða vettvangur fyrir miðlun þekkingar til fyrirtækja og frumkvöðla þar sem m.a. verður veitt leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, tæknileg úrlausnarefni leyst og nýrri þekkingu miðlað til atvinnulífsins. Þessi þekkingarmiðlun er forsenda þess að atvinnulífið geti fylgst með alþjóðlegri þróun og staðist aukna samkeppni á alþjóðamarkaði. Að auki er nýsköpunarmiðstöðinni ætlað að hafa frumkvæði um gagnvirkt samstarf á milli vísindamanna, stofnana og fyrirtækja um málefni er lúta að nýsköpun. Hér er ekki um nýja starfsemi að ræða heldur fyrst og fremst verið að festa í sessi starfsemi sem rekin hefur verið í nokkur ár sem reynsluverkefni hjá Iðntæknistofnun undir nafninu IMPRA. Þessi starfsemi fær nú víðtækara hlutverk við miðlun vísindalegrar þekkingar og umbreytingu hennar í söluhæfar afurðir.

Um Tækniþróunarsjóð er fjallað í 4.--7. gr. frv. Tækniþróunarsjóði er ætlað að koma að fjármögnun þróunar nýsköpunarverkefna í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Um er að ræða aðkomu á frumstigi nýsköpunarinnar við lok hagnýtra rannsókna. Á frumstigi nýsköpunar eiga sér stað markvissar rannsóknir og tækniþróun með markaðs- og notendatengdum áherslum. Það er á því stigi sem reynir á hvort hin vísindalega þekking getur orðið að söluhæfri vöru.

Áherslur Vísinda- og tækniráðs á hverjum tíma verða ráðandi um starfsemina en mikilvægt er að ráðið geti tryggt að vísindaþekkingin fái eðlilega útrás og leiði í reynd til eflingar atvinnulífinu og til efnahagslegra framfara fyrir þjóðina. Sjóðnum er ætlað að vera brú á milli þess er stuðningur Rannsóknarsjóðs samkvæmt frv. menntmrh. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sleppir og þess að framtaksfjárfesta fýsir að koma að nýjum nýsköpunarverkefnum. Mjög hefur skort á opinberan stuðning við þetta frumstig nýsköpunarinnar.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Ég vil þó benda á að mikilvægt er að frumvörpin þrjú sem hér hafa verið lögð fram verði skoðuð sem heild.